Hver veit um aldur trésins?
Í framhaldi af fréttinni í gær um hæsta tréð á Vestfjarðakjálkanum, sitkagrenishöfðingjann í „hlíðinni minni fríðu“ í Reykhólasveit, vill Sæmundur Kr. Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Skjólskóga, nota tækifærið og lýsa eftir upplýsingum um aldur trésins. „Ég hef ekki getað fengið öruggt ártal en sjálfsagt er um að ræða 5. áratuginn. Öspin í Haukadal er hins vegar svokölluð þjóðhátíðarösp, gróðursett sem slík 1974, en þá nokkurra ára pottaplanta,“ segir hann.
Hér með er þessu komið á framfæri. Upplýsingar má hvort heldur senda í netfangið vefstjori@reykholar.is eða skrifa í athugasemdir hérna fyrir neðan.
Þrymur Sveinsson, sunnudagur 17 ma kl: 00:21
Það er minnst á gróðursetningu trjáplantna í Árbók Barðastrandarsýslu 1953, bls. 139 - 140. Frekari aðgerðum var lýst árið eftir í Árbókinni 1954, bls 99 þar sem talað er um að furan þrífist ekki en bundnar séu vonir við að eitthvað af greniplöntunum haldi velli. Mig minnir að amma mín Ingibjörg Árnadóttir hafi sagt mér að Jens Guðmundsson kennari hafi ásamt fleirum sem voru í skógræktarfélaginu Björk gróðursett þessar trjáplöntur og hafi nefnt árið 1954.