Tenglar

24. desember 2014 |

Hvergi á landinu er svona starfsemi við sjóinn

„Þetta er stór hugmynd og dásamlegt ef hún getur orðið að veruleika,“ segir Svanhildur Sigurðardóttir, eigandi SjávarSmiðjunnar á Reykhólum við Breiðafjörð. Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur samþykkt deiliskipulag fyrir heilsuspa við sjóinn sem mun bera nafnið Sjávarböðin. SjávarSmiðjan var opnuð sumarið 2011, en þar er boðið upp á þaraböð þar sem blandast saman gæðavottað þaramjöl frá Þörungaverksmiðjunni og heita hveravatnið á Reykhólum.

 

Svanhildur segir að frá upphafi hafi verið draumurinn að bjóða upp á frekari líkamsmeðferðir. Í því skyni keypti hún 324 hektara land sem nær allt frá syðstu þéttbýlismörkum Reykhóla niður að sjó við Karlsey, þar sem hún stefnir á að reisa heilsuspa. „Þetta er allt á byrjunarstigi en það eru ákveðin tímamót að deiliskipulagið hafi verið samþykkt,“ segir hún.

 

Þetta kemur fram í nýjasta Fréttatímanum. Þar segir ennfremur:

 

Þaraböðin á Reykhólum hafa verið afar vinsæl, bæði meðal heimamanna en einnig innlendra sem erlendra ferðamanna. Við þau er starfrækt lítið kaffihús en gestir fara í baðfötin í útiklefa og njóta útsýnisins yfir Breiðafjörð úr pottunum.

 

„Við vorum alltaf með háleitari hugmyndir en þaraböðin voru tilraun sem hefur heppnast afar vel og nú komið að næsta skrefi,“ segir Svanhildur. Hægt er að kaupa þaramjöl í SjávarSmiðjunni til að nota heima í baðið eða sem maska, en að sögn Svanhildar hefur verið mikil eftirspurn eftir því að hægt sé að fara í heilsumeðferðir í tengslum við þaraböðin.

 

„Fjöldi gesta hjá okkur hefur vaxið ár frá ári. Hér á Íslandi erum við auðvitað þegar með Bláa lónið, Heilsustofnunina í Hveragerði og Jarðböðin við Mývatn, en ég sé fyrir mér að hér á Reykhólum gæti risið meiri heilsuþjónusta. Hvergi á landinu er svona starfsemi við sjóinn. Við myndum þá bjóða upp á nudd og líkamsmeðferðir, það yrði veitingastarfsemi í tengslum við þetta og draumurinn er að geta verið með gistiaðstöðu þannig að hingað gætu jafnvel komið hópar og verið í einhverja daga,“ segir hún.

 

Enn sem komið er liggja bara fyrir frumdrög að teikningum sem nauðsynlegar voru til að leggja fyrir sveitarstjórnina. Í deiliskipulagstillögunni, sem var lögð fram, er gert ráð fyrir að allt svæðið sé ætlað fyrir almenna útivist í sátt við umhverfið og náttúru svæðisins en einnig afmörkun á 10 þúsund fermetra lóð sem er ætluð fyrir þjónustubyggingu, en vinnuheiti starfseminnar er Sjávarböð. Innan lóðarinnar má byggja þjónustubyggingu, smáhýsi, laugar og potta ásamt bílastæðum sem þjóna Sjávarböðunum. Lóðinni er ætlað að vera skipt upp í framkvæmdasvæði og náttúrusvæði þar sem byggingin markar skil á milli þeirra. Svanhildur segir næstu skref að vinna teikningarnar áfram og móta þær betur, auk þess sem fjármögnun sé á byrjunarstigi.

 

„Við gátum ekki gert mikið fyrr en þessi samþykkt var komin í hús,“ segir Svanhildur, en hún vonast til að eftir ár verði þetta verkefni komið á góðan rekspöl.

 

Athugasemdir

Hrefna Hugósdóttir, fimmtudagur 25 desember kl: 13:18

Hljómar rosalega vel, þetta væri algjör snilld allt sem skapar atvinnu, fjölbreytileika og aðdráttarafl fyrir fallegu sveitina án þess að það verði krökkt af túrista :)

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31