Tenglar

11. janúar 2012 |

Hverjir luma á kveðskap eftir Eystein í Skáleyjum?

Eysteinn G. Gíslason. Myndin er tekin árið 1998.
Eysteinn G. Gíslason. Myndin er tekin árið 1998.

Eysteinn G. Gíslason (Eysteinn í Skáleyjum) var á sínum tíma þjóðkunnur hagyrðingur og lausavísur hans flugu víða. Jófríður Leifsdóttir systurdóttir hans er að hefjast handa við að safna saman kveðskap frænda síns og vonast til að finna sem allra mest af því sem eftir hann liggur. Sjálfur er Eysteinn kominn á níræðisaldur og búsettur á Dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum seinustu árin. Eins og svo margt fólk sem komið er á þennan aldur hefur hann tapað minninu þannig að ekki þýðir lengur að leita til hans í þessu efni.

 

„Hann hefur í gegnum tíðina ort mikið til okkar af ýmsu tilefni en ég hef trú á að þetta liggi víðar en innan fjölskyldunnar“, segir Jófríður. „Þannig sá ég að þú birtir á Reykhólavefnum nýlega stórskemmtilegar limrur eftir hann, sem ég hafði aldrei séð áður, og datt því í hug að senda þér línu til að kanna hvort þú hefðir undir höndum eitthvað meira eftir hann eða vissir um einhverja sem ættu í fórum sínum kveðskap eftir hann“, segir hún í tilskrifi til umsjónarmanns vefjarins.

 

Hér er þess vegna eindregið óskað eftir því að fólk sem lumar á lausavísum, limrum, tækifærisvísum eða kvæðum eftir Eystein, eða veit hvar kveðskapur hans hefur birst eða hvar hann gæti leynst, hafi samband við Jófríði, annað hvort í netfanginu jofridur@keilir.net eða í síma 421 5443.

 

Limrusyrpan á Reykhólavefnum sem Jófríður nefnir

 

Athugasemdir

Jófríður Leifsdóttir, fimmtudagur 12 janar kl: 11:33

Að auki má ná í mig í síma 893-2243

Hulda Ösp Atladóttir, fimmtudagur 12 janar kl: 11:48

Þegar ég var í sveit í Skáleyjum sumarið 96 var 17. júní haldinn hátíðlegur og af því tilefni orti Eysteinn texta við lagið "snert hörpu mína". Lengi kunni ég öll erindin utanbókar en nú man ég bara fyrstu tvær línurnar.

"Í Skáleyjum við skrítinn sjáum lýð
að skemmta sér og halda þjóðhátíð."

Ég er afskaplega leið yfir að muna ekki meir. Ég vona að þetta kvæði hafi einhversstaðar varðveist.

Jófríður, fimmtudagur 12 janar kl: 13:49

Sæl Hulda.
Ég kannast við þennan texta, hann kemur vonandi í leitirnar þegar ég fer í gegnum þetta allt saman.

Jófríður, fimmtudagur 12 janar kl: 20:07

Kvæðið er fundið:)


Þjóðhátíðarlag (Snert hörpu mína)
(Samið fyrir 17. júní 1996 í Skáleyjum)

Í Skáleyjum við skrítinn sjáum lýð
að skemmta sér og halda þjóðhátíð,
í banastuði bætir fyrri met
að borða grillað fjallalambaket.

Þar æðarfugl á sundi kvakar kátt,
og krían brúkar munn í vesturátt,
við bryggjusporðinn dansar teista tjútt,
hún tístir glöð og er svo mikið krútt.

En kýrnar grasið bíta bústnar mjög
og baula fögur þjóðhátíðarlög,
með ungum sínum gömul gæsahjón
um grundir kjaga, virðuleg í sjón.

Í góðu skapi út um allan sjó
nú ungir kópar leika sér í ró.
Þeirra greind er algjört Íslandsmet,
og enginn sjens að veiða þá í net!

Og mannabörnin afar glöð og góð
þá gaula skrítin þjóðhátíðarljóð
en spáný leikrit setja þau á svið.
Á sautjándanum þetta gerum við!!

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31