Hvert erum við að stefna?
„Mér fannst ánægjulegt að sjá frétt um skynsamlegar rannsóknir sem verið er að stunda á Tálknafirði. Þar er verið að rannsaka hvort ekki sé gott að ala saman bláskel og þorsk. Þetta er að vísu ekkert nýtt. Sameldi eða fjöleldi hefur verið stundað víða um heim í einhverjum mæli - og með ýmsum tegundum. Ég hef átt samtöl og umræður við fjölda vísindamanna um þessi mál - bæði evrópska og vestanhafs“, segir dr. Þorleifur Ágústsson lífeðlisfræðingur, verkefnastjóri hjá Matís á Ísafirði.
„Við höfum jafnvel gerst svo djarfir nafnarnir - ég og Þorleifur Eiríksson hjá Náttúrustofu Vestfjarða, að skrifa umsóknir - já, fleiri en eina - til að þess að reyna að afla peninga til slíkra rannsókna. Rannsókna sem skilgreina mikilvægi og möguleika á að nota eina tegund (bláskel) til að minnka lífræna mengun frá þorskeldiskvíum", segir Þorleifur í pistli hér á vefnum.
„En ávallt hefur þessum umsóknum verið hafnað - ekki talin vera þörf á umhverfisrannsóknum á Íslandi. Að slíkar rannsóknir auki ekki verðmæti íslensks sjávarfangs. Þvert ofan í mat erlendra sérfræðinga sem þó hafa verið meðhöfundar á slíkum umsóknum. En nei - umhverfismálin eru bara eitthvað sem engu skilar. Því miður."
Í lokin á pistli sínum spyr Þorleifur: „Hvert eigum við að stefna? Er ekki tíminn núna - tíminn til að sýna ábyrgð og hafa framtíðarsýn sem við getum verið stolt af - bera ábyrgð á auðlindum okkar og framtíð!?“
__________________________________________________
Pistill Þorleifs Ágústssonar birtist á bloggsíðu hans 2. janúar 2009.
Hann má finna í heild undir Sjónarmið / Aðsent efni > Hvert erum við að stefna? í valmyndinni hér vinstra megin.
Sjá einnig:
10.12.2008 > Pökkunarstöð fyrir krækling í Króksfjarðarnesi?