Hvít jól eða rauð - eða flekkótt?
Þótt einungis fáir dagar séu til jóla virðist ekki ljóst hvort jólin við innanverðan Breiðafjörð verði hvít eða rauð, eins og kallað er. Snjór er ekki mjög verulegur en undanfarna daga hefur verið hraglandi af norðaustri öðru hverju og hiti yfirleitt skammt undir frostmarki. Svipað verður líklega á morgun, sunnudag, en síðdegis á mánudag er gert ráð fyrir því að vindur snúist til suðurs með hlýnandi veðri og rigningu. Á þriðjudag, Þorláksmessu, og fram á jóladag er síðan búist við allhvassri suðlægri átt með nokkurra stiga hita og rigningu eða skúrum.
Þess ber samt að gæta, að veðurspár á Íslandi eru nokkuð ótrygg vísindi, ekki síst þegar hitinn þvælist í grennd við frostmarkið og umhleypingar eru í veðri. Óvarlegt er því að fullyrða neitt um litaraft jarðar í Reykhólahreppi um þessi jól, enn sem komið er. Ekki er þó ólíklegt að jólin verði svo sem hvorki hvít né rauð, heldur flekkótt, ef svo mætti komast að orði.
Myndina tók Árni Geirsson yfir Gilsfirði í febrúar 2006 þegar hann var þar á ferð á flygildi sínu. Út af fyrir sig er þetta skemmtileg mynd af veginum yfir Gilsfjörðinn frá öðru sjónarhorni en almennir vegfarendur hafa. En það sem gerir hana enn sérkennilegri og gefur henni aukið gildi eru hnén á ljósmyndaranum ...
Sjá valmyndina hér til vinstri: Ljósmyndir > Ýmis myndasöfn > Árni Geirsson.
Notendur vefjarins skulu einnig minntir á tengilinn Veðrið á svæðinu í valmyndinni. Prófið að kíkja þar inn.
Veðurstofa Íslands - veðurspá fyrir Breiðafjörð