Tenglar

13. febrúar 2013 | vefstjori@reykholar.is

Hyggjast byggja á iðnaðarsvæðinu á Reykhólum

Horft til suðurs frá útsýnisskífunni á Hellishólum á Reykhólum.
Horft til suðurs frá útsýnisskífunni á Hellishólum á Reykhólum.
1 af 2

Fyrirtækið Verklok ehf. (Brynjólfur Smárason verktaki á Reykhólum) fékk á síðasta fundi skipulags- og bygginganefndar Reykhólahrepps vilyrði fyrir byggingarlóð á iðnaðarsvæðinu neðan við Reykhólaþorp. Þó að fyrirtækið sé skráð fyrir umsókninni stendur Eiríkur Kristjánsson húsasmíðameistari á Reykhólum ásamt Brynjólfi að baki hugmyndinni að húsbyggingunni.

 

„Þetta er allt á teikniborðinu ennþá og ekkert ákveðið hvenær við hefjumst handa við bygginguna sjálfa,“ segir Brynjólfur. Hins vegar hafi þeir félagar hug á því að geta notað dauðasta tímann núna á næstunni til jarðvegsskipta. Þarna sé mest mold og leir og þess vegna mikið starf fyrir höndum í þeim efnum.

 

Brynjólfur segir að stærð hins fyrirhugaða húss liggi ekki fyrir og ekki heldur hvernig það yrði nýtt. Ef hann og Eiríkur myndu nýta húsið í félagi yrðu þar væntanlega verkstæði fyrir Brynjólf (Verklok ehf.) og smíðaverkstæði fyrir Eirík.

 

Lóðin sem hér um ræðir er nr. 6 við Suðurbraut, sem liggur suður-norður samhliða Karlseyjarvegi (sjá mynd). Hann er beint framhald af Maríutröð, aðalgötu Reykhólaþorps, og liggur niður að höfninni, Þörungaverksmiðjunni og húsi Íslenska saltfélagsins sem þar er að rísa.

 

Suðurbraut er sérstæð að því leyti, að lóðir (hús) með oddatölum eru við hana austanverða en lóðir með sléttum tölum (eins og sú sem hér um ræðir) eru við eins konar botnlanga sem liggur í vestur, hornrétt á Suðurbraut sjálfa.

 

Orkubú Vestfjarða með bækistöð að Suðurbraut 2 (tvær byggingar). Við Suðurbraut 4 er hús í eigu Gústafs Jökuls Ólafssonar og Herdísar Ernu Matthíasdóttur (af sögulegum ástæðum í daglegu tali kallað Verkunin þó að þar sé engin grásleppuverkun lengur). Þar fyrir vestan er svo lóðin nr. 6 við Suðurbraut þar sem Brynjólfur og Eiríkur hyggjast byggja.

 

Verkstæði Guðlaugs Theodórssonar (Steinverk ehf.) er að Suðurbraut 1 (fyrsta hús vinstra megin þegar ekið er niður eftir), síðan er verksmiðjuhús Gullsteins ehf. (Jón Árni Sigurðsson) við Suðurbraut 3 og loks er skemma Björgunarsveitarinnar Heimamanna að Suðurbraut 5. Þar handan (vestan) götunnar er sorpsvæði Reykhóla.

 

Afgreiðslur síðasta fundar skipulags- og bygginganefndar Reykhólahrepps (sjá dálkinn Fundargerðir hér neðst til vinstri á síðunni) verða teknar til endanlegrar afgreiðslu í hreppsnefnd á morgun.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30