Í Flatey er drukkið Guði til dýrðar
Helgin fyrir hálfri annarri viku var annasöm í Flatey á Breiðafirði. „Bæði voru það verkefni sem við vildum inna af hendi samkvæmt tilmælum biskups og samtímis var farin dósaferð nr. 2 á þessu hausti og vetri,“ segir Gunnar Sveinsson í Eyjólfshúsi í Flatey. „Veðurlag var ekki með allra besta móti í Flatey þessa helgi en dósamenn létu sig hafa það þó vindmælirinn á Kjalarnesi sýndi 52 vindstig þegar ekið var þar í gegn á föstudag. En dósamenn kalla nú ekki allt ömmu sína og eru frómt frá sagt vanir slíkum vindi í dósaferðum. Fyrir þá sem ekki vita, þá er hin árlega dósaferð út í Flatey nokkurs konar uppskeruhátíð fyrir fjáröflunarnefnd Flateyjarkirkju, sem er jafnan farin í októbermánuði ár hvert.“
Þannig er upphaf fréttabréfs Gunnars til fjöldamargs fólks sem tengist Flatey á einn eða annan hátt og hann hefur líka sent vef Reykhólahrepps til birtingar. Gleymum því ekki, að Flateyjarhreppurinn gamli er hluti af Reykhólahreppi hinum nýja. Síðan segir Gunnar Sveinssson:
- Í þessum ferðum eru dósir og plastflöskur pressaðar og vandlega taldar og komið fyrir í netum ásamt því að gengið er snyrtilega og skipulega frá flöskum í þar til gerð kör til flutnings úr eyjunni. Þessi ferð var farin til að koma afrakstri sumarsins í Stykkishólm og rúmaðist fjöldinn í 11 körum og 23 stærðar netum, en pressað var og talið í lok september þegar Særún var í ferðum.
- Dósakarlar í þessum ferðum hafa jafnan verið úr Myllustöðum, Bentshúsi og Eyjólfshúsi ásamt tveim-þrem velunnurum Flateyjar og er yfirleitt biðlisti að komast í þessar eftirsóttu ferðir enda jafnan skemmtan hin besta, afrakstur fyrir kirkjuna góður og eftirvænting að vita hver talningartalan verður þegar upp er staðið.
- Magnús í Krákuvör hefur jafnan lagt til sín öflugu flutningatæki til flutnings niður á bryggju og er honum sérstaklega þökkuð liðveislan. Minnt skal á að allur afrakstur dósa- og flöskusöfnunar rennur óskiptur til Flateyjarkirkju og innkoman greiðir yfirleitt allan olíu- og kyndingarkostnað kirkjunnar og rafmagn að auki.
- Fjöldi dósa og flaskna hefur verið frá 26 þúsund upp í 32 þúsund í bestu afkomuárum og getur innkoman slegið upp í hálfa milljón fyrir kirkjuna. Nefndin sendir hér með öllum þeim sem lagt hafa í söfnunarkassa kirkjunnar bestu þakkir og minnir á kjörorðið, að í Flatey er drukkið Guði til dýrðar og kirkjunni til fjáröflunar.
- Þessi ferð var einnig notuð til að fara að tilmælum biskups um að hringja kirkjuklukkum Flateyjarkirkju í sjö mínútur á laugardag klukkan eitt. Það var bæði sérkennileg og hátíðleg stund að hringja klukkum kirkjunnar á þessum tíma í Flatey. Tilefnið var alþjóðleg hnattvæðing gegn einelti og kynferðisofbeldi eins og kemur fram í boðskap biskups hér að neðan.
- Fámennt var í Flatey. Aðeins verið í sex húsum þessa helgi, en góðmennt var það. Tilkynningin um klukkuhringuna var borin út í húsin fyrir þessa athöfn, þannig að þeir sem í Flatey voru vissu hvað væri á ferðinni.
- Við klukknasláttinn sýndi Guðmundur Stefánsson á Myllustöðum á sér nýja hlið. Önnur eins einbeiting og og innri sköpunarkraftur hafa ekki sést við klukkuhringingu í Flatey í langan tíma. Guðmundur náði að hringja saman hljóm stóru klukkunnar við þá litlu á þann hátt að áheyrendur fylltust andakt og innri ró og var Guðmundur lofaður mjög í lok athafnar. Voru menn sammála um að vel hafi til tekist þó hljómurinn hafi ekki víða farið fyrir stórviðrinu sem beljaði fyrir utan.
Hér fyrir neðan má lesa þau tilmæli Agnesar M. Sigurðardóttur biskups Íslands, að hringt sé í kirkjum landsins þennan dag. Naumast þarf að segja fólki í Reykhólahreppi frá því, að Agnes biskup er dóttir séra Sigurðar heitins Kristjánssonar frá Skerðingsstöðum í Reykhólasveit, sem lengi var prestur og síðan prófastur á Ísafirði.
Einelti er alvarlegt vandamál í samfélagi okkar. Það fyrirfinnst í öllum aldurshópum, á vinnustöðum, í skólum og annars staðar í samfélaginu. Alþjóðleg hnattvæðing gegn einelti og kynferðisofbeldi frá vöggu til grafar er 8. nóvember. Undanfarin ár hefur bjöllum verið hringt í kirkjum landsins þennan dag. Þannig hefur kirkjan viljað leggja baráttunni lið. Lagt er til að kirkjuklukkum verði hringt þar sem því verður við komið laugardaginn 8. nóvember kl. 13 í 7 mínútur, en það er mínúta fyrir hvern dag vikunnar. Þannig leggur Þjóðkirkjan sitt af mörkum til að minna á alvarleika eineltis og kynferðisofbeldis. Sú áminning er liður í að uppræta eineltið og ofbeldið sem því miður virðist ekki vera vanþörf á.
Með bæn um blessun Guðs í lífi og starfi.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Smellið á myndirnar til að stækka þær.