Í Reykhólahreppi er hreinlega allt fyrir ferðafólk
Núna þegar Reykhóladagar 2014 eru afstaðnir með sérstökum ágætum er ekki úr vegi að minna á sitthvað sem ferðafólk getur notið eftir sem áður í Reykhólahreppi. Þar má nefna Grettislaug á Reykhólum, þaraböðin í Sjávarsmiðjunni, Báta- og hlunnindasýninguna, Arnarsetur Íslands, handverks-, nytja- og bókamarkað Össu í Króksfjarðarnesi, forntraktorana, ballið í Flatey núna um verslunarmannahelgina, markaðinn í gamla frystihúsinu í Flatey og allt annað sem þar er að finna og skoða.
Svo er auðvitað hin einstaka náttúrufegurð hins víðlenda Reykhólahrepps, sem er yfir þúsund ferkílómetrar og spannar svæðið allt frá Gilsfirði og vestur í Kjálkafjörð rétt austan við Barðaströnd, ásamt mestum hluta Breiðafjarðareyja þar sem Flatey er höfuðstaður.
En ekki síst skal minnt á stað og starfsemi sem er rétt utan marka Reykhólahrepps en Reykhólahreppur á þó hlut í: Það er skólasetrið gamla og stórmerka Ólafsdalur við Gilsfjörð. Þar er opið alla daga í sumar kl. 12-17 og síðan er Ólafsdalshátíðin árvissa um aðra helgi eða sunnudaginn 10. ágúst.
Gistimöguleikar í Reykhólahreppi eru margir og fjölbreyttir: Hótel Bjarkalundur við Berufjörð, Gistiheimilið Álftaland á Reykhólum, Hótel Flatey, bændagistingin á landnámsjörðinni Miðjanesi í Reykhólasveit, heimagistingin í Djúpadal í Gufudalssveit þar sem prýðileg sundlaug fylgir með, og síðan tjaldsvæði og aðstaða fyrir húsbíla og allt það við Grettislaug, Álftaland og Bjarkalund.
Reykhólaskóli er á sumrin leigður út fyrir ættarmót og aðrar samkomur. Sumir gista þar inni en við skólann er líka tún fyrir tjöld, húsbíla og annað slíkt. Hægt er að fá að nota skólaeldhúsið og matsalinn og líka íþróttahúsið fyrir samkomur. Þetta þarf raunar ekki að auglýsa því að færri fá en vilja.
Allar nánari upplýsingar um gististaðina og aðstöðuna þar (og allt annað sem hér hefur verið nefnt) má fá á Upplýsingamiðstöðinni á Reykhólum (síminn þar er 434 7830 og netfangið info@reykholar.is).
– Vinir Reykhólahrepps eru beðnir að deila þessu sem víðast!