Í minningu Böddu á Hofsstöðum
Bjargey ólst upp við sveitastörf, eins og gerðist á þeim tíma. Eftir barnaskóla, sem var farskóli, fór hún í héraðsskólann í Reykjanesi við Djúp og þar nutu afburða námshæfileikar hennar sín vel. En hún kaus heldur að starfa heima í sveitinni sinni að því námi loknu en að stunda framhaldsnám. Meðal annars vann hún við barnaskólann á Reykhólum, sem nýlega var tekinn til starfa.
Árið 1952 giftist hún Ragnari Sveinssyni frá Hofsstöðum, og hófu þau búskap þar sama ár. Þar bjuggu þau um 35 ár, og nokkur síðustu árin í félagi við Arnór son þeirra. Ragnar lést árið 1994. Þau eignuðust þrjú börn, Svein sem rekur verkstæði á Svarfhóli, Arnór bónda á Hofsstöðum, og Ragnheiði tanntækni í Reykjavík.
Eftir að Bjargey og Ragnar hættu búskap fór hún að stunda vinnu í Reykjavík og víðar, en var samt með annan fótinn heima í sveitinni. Þá fór hún líka að ferðast töluvert um landið og hafði mikla ánægju af því. Þegar hún fór að dvelja meira fyrir sunnan fór hún að starfa með kvæðamannafélaginu Iðunni, og í þeim félagsskap naut hún sín afar vel.
Badda á Hofsstöðum hafði mikinn áhuga á kveðskap og var snilldarhagyrðingur sjálf. Allmikið liggur eftir hana af ljóðum, tækifæriskveðskap og gamanvísum, en einnig alvarlegri ljóð, erfiljóð og hátíðaljóð ort af ýmsu tilefni.
Þrjár bækur hafa komið út með kveðskap hennar, Vestfjarðavísur 2007, Brugðið á leik 2009 og Sláturvinnuvísur 2010. Auk þess hafa vísur eftir hana birst í bókum með úrvali ljóða, blöðum og víðar.
Eitt erindi nefnir hún „Gildi vináttunnar“:
Það verður alltaf svo við leiðarlok
að litlu skipta jarðargæðin bestu.
Til að létta okkar þunga ok
mun einlæg vinarhugsun skipta mestu.
Minningarathöfn verður í Fossvogskapellu fimmtudaginn 4. nóvember kl. 15. Jarðarförin fer fram frá Reykhólakirkju laugardaginn 6. nóvember.