Tenglar

9. október 2016 | Umsjón

Í minningu Ölmu á Hafrafelli

Sigvaldi og Alma.
Sigvaldi og Alma.

Alma Dóróthea Friðriksdóttir (Alma á Hafrafelli) var jarðsungin á Reykhólum í gær, 8. október. Hún andaðist 3. október, daginn þegar hún varð 86 ára, og hafði þá verið á sjúkrahúsinu á Akranesi í mánuð eftir fótbrot. Eiginmaður hennar var Sigvaldi Guðmundsson, sem lést 12. maí á síðasta ári. Þá hafði farsæl sambúð þeirra staðið í 66 ár og afkomendurnir eru komnir á fimmta tuginn. Þau Alma og Sigvaldi bjuggu á Hafrafelli í Reykhólasveit alla sína tíð þangað til þau komu til dvalar í Barmahlíð á Reykhólum snemma árs 2006.

 

Alma Dorothea Erna Weidermann fæddist í Þýskalandi 3. október 1930 og ólst þar upp. Foreldrar hennar voru hjónin Olga Maria og Helmuth Friedrich Weidermann. Voru börn þeirra fjögur, auk Ölmu þau Erich, Rita og Dieter, sem nú lifir einn eftir þeirra systkina.

 

Árið 1948 þegar Alma var átján ára kom hún til Íslands í atvinnuleit og fékk vinnu á veitingastaðnum Ferstiklu í Hvalfirði. Árið eftir kynntist hún tvítugum strák á mótorhjóli, Sigvalda Guðmundssyni á Hafrafelli í Reykhólasveit.

 

Börnin þeirra Ölmu og Sigvalda urðu sex talsins. Þau eru:

  • Olga (f. 1951)
  • Dóróthea Guðrún (f. 1952)
  • Haflína Breiðfjörð (f. 1956)
  • Marta (f. 1957)
  • Guðmundur Helmuth (f. 1960)
  • Trausti Valgeir (f. 1967)

Barnabörnin eru þrettán, barnabarnabörnin orðin tuttugu og þrjú, og til viðbótar er komið eitt barn í fjórða lið.

 

 

Hér fylgir kafli úr ræðu sr. Hildar Bjarkar Hörpudóttur sóknarprests á Reykhólum við útför Ölmu (birtur með leyfi prestsins og aðstandenda hinnar látnu):


  • Alma fæddist og ólst upp í bændahéraði í Þýskalandi á miklum átakatímum. Hún minntist þó æsku sinnar með hlýju og þá sérstaklega vinkvennanna og alls þess sem þær fundu upp á til þess að gera hversdaginn skemmtilegan.
  • Æskudraumurinn var að verða handavinnukennari en hún var fjórtán ára gömul þegar foreldrar hennar báðu hana að byrja að vinna og leggja til heimilisins og því kvaddi hún langskóladrauminn fljótt og skildi vel þörf fjölskyldu sinnar.
  • Átján ára, árið 1948, heyrði hún orðróm um að nóg væri af vinnu á lítilli eyju í miðju Atlantshafi og sannfærði vinkonu sína um að koma með sér í smá ævintýri. 
  • Hún og vinkona hennar keyptu rándýrt far með stóru skipi til Íslands, en þegar þær stóðu á bryggjunni kom í ljós að seldir höfðu verið of margir miðar í skipið svo að þær komust ekki með.
  • Fóru þær vinkonurnar niðurbrotnar á hrörlegt gistihús og grétu um nóttina yfir öllu sem þær væru að missa af, en örlögin ætluðu henni Ölmu okkar svo sannarlega lengra! Því næsta morgun kemur maður og býður þeim og öðrum sem komust ekki með stóra skipinu far á skipinu sínu, litlum dalli, og svo fór að þær skelltu sér um borð. Alma sagðist aldrei gleyma þessari skipsferð, svo rosaleg var hún, og mikið voru þær glaðar þegar þær stigu á fast land á Íslandi.
  • Alma var snögg að ganga til verka og fékk fasta vinnu á Ferstiklu, sem var þjónustumiðstöð og veitingasala í Hvalfirði. Þar var hún hjá góðum hjónum sem ætluðust til mikils af henni og hinum stúlkunum sem voru í starfi hjá þeim. Svo mikils, að rútubílstjóra einum var nóg boðið og krafðist þess að stúlkurnar fengju nú eina helgi í frí eftir 9 vikna törn og að hann skyldi sjálfur sjá um það frí ef þær mættu fara.
  • Svo fór að Alma og stúlkurnar fóru með honum í langþráð helgarfrí og auðvitað keyrði hann beint með þær vestur! Þessa helgi skemmti hún sér ákaflega vel en helsta skemmtunin var þó sú að gjóa augunum á ungan mann, með dökkt hár og brún augu, sem þeystist um á mótorhjóli á milli smíðaverka við hlöðu eina þarna rétt hjá.
  • Þrátt fyrir að fröken Alma héldi eftir þessa helgi að hann hefði nú lítinn áhuga fór okkar maður að birtast reglulega í veitingaskálanum á Ferstiklu, nýgreiddur þrátt fyrir að hafa ferðast á mótorhjóli alla þessa leið!
  • Það þurfti nokkur slík skipti og eina helgarferð til viðbótar, og þá kom Sigvaldi lokaferðina á Ferstiklu og tilkynnti sinni elskulegustu að nú væri komin tími til þess að hún kæmi heim í sveitina og hætti þessu basli.
  • Alma sagði að þarna hefði hún í eitt af mjög fáum skiptum sett Sigvalda stólinn fyrir dyrnar, því fyrst ætlaði hún að ljúka námskeiði í húsmæðraskólanum sem þau hjónin á Ferstiklu hefðu kostað hana til og svo mætti hann sækja hana. Og það var nákvæmlega það sem gerðist.
  • Alma mætti með Sigvalda nokkrum vikum seinna á Hafrafell, búin að læra að gera íslenskt slátur og prjóna skírnarkjól!
  • Þetta var árið 1949 þegar Alma var nítján ára gömul. Strax þá einkenndist persónuleiki hennar af góðvild og styrk og er enn um það rætt hversu mikið happ það var fyrir fólkið á Hafrafelli þegar Alma kom og hversu gott og fallegt samband hún hefði átt alla tíð við tengdaforeldra sína sem bjuggu þarna með þeim. Það tísti reyndar svolítið í henni þegar hún rifjaði upp þá tilfinningu að hún hefði yfirgefið Ferstiklu með miklum heimsborgara á mótorhjóli en komist svo að raun um þegar þau voru búin að vakna nokkra morgna saman á Hafrafelli að heimsborgarinn hennar var íslenskur bóndi og vélamaður!
  • En þarna vissi okkar kona strax að hennar mesti fjársjóður var að verða til, börnin hennar og hennar eigin fjölskylda. Enda í þau fáu skipti sem hún fór aftur til Þýskalands í heimsókn var hún að eigin sögn orðin ómöguleg eftir nokkra daga, því heimþráin varð svo mikil og söknuðurinn eftir börnunum.

 

Alma og Sigvaldi fluttust á hjúkrunarheimilið Barmahlíð á Reykhólum 3. mars 2006 eftir að Sigvaldi veiktist. Bæði fengu þau einstaka og yndislega umönnun og hlýju og vilja börnin þeirra þakka starfsfólki Barmahlíðar sérstaklega og einnig starfsfólki á sjúkrahúsinu á Akranesi fyrir mikla umhyggju.

 

Nokkur æviatriði Sigvalda á Hafrafelli (16. maí 2015)

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31