Tenglar

5. janúar 2016 |

Í mörg horn að líta hjá Hildi Björk á liðnum árum

Hildur Björk, Egill Rúnar og börnin.
Hildur Björk, Egill Rúnar og börnin.
1 af 2

„Þar sem ég er nú frekar mikil náttúru- og ævintýramanneskja, þá er þetta víðlenda prestakall meira heillandi heldur en hitt,“ segir Hildur Björk Hörpudóttir, verðandi sóknarprestur í Reykhólaprestakalli, aðspurð hvernig henni lítist á að koma til starfa þessu stóra prestakalli og fremur erfiða yfirferðar stundum. „Við hjónin komum fyrir jól og eyddum deginum á Reykhólum og í sveitunum í kring. Okkur var virkilega vel tekið. Við hlökkum mikið til að fá að taka þátt í þessu samfélagi og líst einstaklega vel á,“ segir hún.

 

„Mig langar að þakka það traust sem mér hefur verið sýnt með þessu vali og ráðningu og hugsa með tilhlökkun, þakklæti og auðmýkt til þeirra góðu tíma sem framundan eru.“

 

Hildur Björk er 35 ára, fædd í Reykjavík, dóttir Hörpu Pétursdóttur sölustjóra og Leifs Helgasonar tamningamanns og smiðs. Hún á fjóra bræður og eina systur og er elst í hópnum.

 

Eiginmaður hennar er Egill Rúnar Erlendsson hugbúnaðarsérfræðingur og börnin eru þrjú: Auður Emilía 14 ára, Markús Páll Bjarmi 13 ára og Bjartur Stefán 7 ára.

 

„Við hjónin erum bæði framkvæmdastjórar, ég í Vinasetrinu, stuðnings- og helgarheimili fyrir börn og unglinga, og hann í eigin hugbúnaðarfyrirtæki, sem starfar mest fyrir fyrirtæki í Bandaríkjunum sem heitir Automattic. En Egill mun vinna áfram að því sama þó hann flytji til Reykhóla.“

 

Aðspurð hvort hún hafi einhver sérstök tengsl við Reykhóla eða héraðið segir Hildur Björk svo ekki vera. „En við Elína Hrund fyrrverandi sóknarprestur á Reykhólum sitjum saman í stjórn áhugafélags um guðfræðiráðstefnur. Hún hefur borið mikið lof á Reykhóla og samfélagið þar og því var þetta mjög spennandi kostur.“

 

Hildur hefur stundað nám af ýmsu tagi við Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í guðfræði árið 2007, hlaut diplóma í hagnýtum jafnréttisfræðum árið 2008, lauk meistaraprófi í mannauðsstjórnun árið 2010, hlaut kennsluréttindi árið 2012 og lauk meistaraprófi í guðfræði á síðasta ári.

 

Frá árinu 2012 hefur Hildur Björk verið framkvæmdastjóri og eigandi Vinasetursins, sem áður var getið. Jafnframt hefur hún frá sama tíma annast ráðgjöf við frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki. Nokkur síðustu misserin hefur hún verið verktaki í verkefnavinnu fyrir Biskupsstofu og Þjóðkirkjuna og síðustu tvö árin kenndi hún félagsfræði við Keili, Háskólabrú.

 

Af fyrri störfum um lengri eða skemmri tíma má nefna, að á árunum 2010-2013 var Hildur fyrst deildarstjóri og síðan forstöðumaður á Ránargötu 12, áfangaheimili Reykjavíkurborgar. Á árunum 2002-2007 var hún stuðningsfulltrúi á heimilum fyrir börn og fullorðna á vegum Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra Reykjanesi/Reykjavík og á árunum kringum aldamótin var hún deildarstjóri á leikskólanum Barnabæ.

 

Hvað margháttuð störf Hildar á vegum og í þágu kirkjunnar má nefna sunnudagaskólafræðslu í Lindakirkju og Langholtskirkju og fermingarfræðslu í þeirri síðarnefndu, ritstjórn á vefnum Barnatrú.is og uppsetningu á nýjum vef og nýrri efnisveitu fyrir Þjóðkirkjuna á síðasta ári. Hún annaðist gerð nýs námsefnis fyrir fermingarfræðslu Þjóðkirkjunnar, hefur skrifað pistla á vefinn ferming.is og flutt fyrirlestra á haust- og vetrarnámskeiðum kirkjunnar. Á síðasta ári var hún í starfsnámi í Bretlandi varðandi „kirkjubrall“ (Messy Church) og barnastarf.

 

Meðal félags- og mannúðarstarfa sem Hildur Björk hefur fengist við um dagana má nefna að hún hefur verið fósturforeldri fyrir barnaverndarnefnd Kópavogs (skammtímafóstur) og liðsstjóri í sjálfboðavinnu hjá Breiðabliki og HK í Kópavogi og hefur aðstoðað við kennslu og skipulagningu háskólanáms fyrir fatlaða.

 

Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31