Íbúafundurinn í dag um Vestfjarðaveg (60)
Íbúafundurinn í dag var vel sóttur, þrátt fyrir skamman fyrirvara og annatíma hjá flestum.
Sveitarstjórn boðaði til þessa fundar vegna heimsóknar verkfræðinga frá norsku verkfræðistofunni Multiconsult sem voru að kynna sér staðhætti og afla upplýsinga til að meta kosti í leiðavali á Vestfjarðavegi (60). Forsögu þessa máls þekkir fólk og verður hún ekki rakin hér.
Allar leiðirnar sem hafa verið nefndar á þessu svæði áttu sér fylgismenn á fundinum. Fundarmenn voru duglegir að tjá gestunum skoðun sína á hvaða leið væri heppilegust og færðu ágætis rök fyrir máli sínu.
Norðmennirnir þeir Lars Peder Larsgård og Sigurður Jens Sigurðsson voru ánægðir með að fá svona mörg sjónarmið í sarpinn, það auðveldaði þeim að skilja hvað við er að fást í þessu máli. Einnig var þarna Halldóra Hreggviðsdóttir frá Alta ráðgjafastofu sem heldur utan um þetta verkefni fyrir hönd Reykhólahrepps.
Síðar verður birt hér á síðunni efni úr fundargerð.