Iðja félagsþjónustunnar verður opnuð í haust
Eins og hér hefur komið fram er unnið að því á vegum Félagsþjónustu Stranda og Reykhólahrepps að koma á fót iðjustofu ætlaðri fötluðum, atvinnulausum, þeim sem eru félagslega einangraðir, fólki í endurhæfingu og öðrum sem gagn og gaman hefðu af slíku. Núna er verið að ganga frá ráðningu starfsmanns í hlutastarf. Iðjan verður á Hólmavík, en hér er um að ræða tilraunaverkefni til eins árs.
Hildur Jakobína Gísladóttir félagsmálastjóri telur brýna þörf á að koma á fót einhvers konar iðju fyrir þann hóp sem hér um ræðir. Verkefninu yrði valinn staður á Hólmavík þar sem flestir eru sem gætu nýtt sér þessa þjónustu.
Iðjan verður opin frá kl. 9 á morgnana fram til kl. 14 og verður opið hús fyrir alla sem vilja. Starfsmaður þar mun verða í 60% starfi.
Í lögum um málefni fatlaðs fólks segir að veita skuli fötluðum þjónustu sem miði að því að gera þeim kleift að lifa og starfa í eðlilegu samfélagi við aðra. Þessi þjónusta varðar endurhæfingu, félagslegan stuðning og félagslegt samneyti, þar með talið til að njóta tómstunda og menningarlífs.
Að sögn Hildar Jakobínu er hugmyndin að vera með starfsemi frá kl. 10 til 14 sem henti hverjum og einum. Þar fari fram margvíslegt starf eins og mósaíkgerð og prjónaskapur og jafnvel vinnutengd úrræði fyrir stofnanir eða fyrirtæki á landsvísu. Athugað verður með samstarfsvettvang hjá Vinnumiðlun og Virk, starfsendurhæfingarsjóði.
Heitt verður á könnunni allan tímann og fólk getur teflt, prjónað, spjallað, farið á netið o.s.frv. Meiningin er að elda jafnvel léttan hádegisverð saman sem hver og einn myndi borga fyrir. Félagsmálastjóri og iðjuþjálfi geta mætt reglulega og verið með ráðgjöf.
Afrakstur vinnu vetrarins verður síðan seldur næsta sumar á handverksmörkuðum í byggðarlögunum sem að félagsþjónustunni standa.
Hver og einn sem kemur í iðjuna þarf að leggja sitt af mörkum. Hugmyndin er líka sú að vera í framtíðinni með sjálfsstyrkingarnámskeið og jafnvel standa fyrir tilsögn í ræðumennsku og eflingu fólks í að koma opinberlega fram og tala.
Hildur Jakobína segir að reynslan af þessu tilraunaverkefni og hugmyndir frá öðrum verkefnum af þessu tagi verði notuð til að þróa starfsemina frekar.