Iðnaðar- og viðskiptaráðherra og föruneyti í heimsókn
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra er þessa dagana í yfirreið um Vestfirði, ræðir við sveitarstjórnarfólk og heimsækir fyrirtæki og kynnir sér starfsemi þeirra. Í gær kom ráðherra ásamt aðstoðarmanni sínum og bílstjóra á Reykhóla, sem voru fyrsti viðkomustaðurinn. Með í för voru tveir þingmenn NV-kjördæmis, þeir Einar Kristinn Guðfinnsson, forseti Alþingis, og Haraldur Benediktsson, fyrrv. formaður Bændasamtakanna.
Myndirnar sem hér fylgja tók Ágúst Már Gröndal þegar Ragnheiður Elín og föruneyti hennar komu á skrifstofu Reykhólahrepps og heimsóttu Þörungaverksmiðjuna og Norðursalt á Reykhólum.
Síðan var haldið áfram til Patreksfjarðar og í dag heimsótti ráðherrann fyrirtæki í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi. Á morgun verður farið um Ísafjörð, Bolungarvík og Súðavík áður en haldið verður aftur til Reykjavíkur með viðkomu á Hólmavík.