Illa gengur að fá fólk til starfa á Reykhólum
Í atvinnuauglýsingakálfi Fréttablaðsins í dag auglýsir Reykhólahreppur laus störf í mötuneyti hreppsins (sameiginlegu mötuneyti Reykhólaskóla og Barmahlíðar). Ekkert atvinnuleysi er skráð í sveitarfélaginu og verður það að teljast gleðilegt en á móti kemur að afar illa gengur að fá fólk. Á undanförnum misserum hefur margoft verið auglýst eftir fólki til hinna og þessara starfa á Reykhólum en viðbrögð hafa yfirleitt verið sáralítil og í héraðinu hafa þau verið nánast engin.
Sérkennilegt má því telja hversu margir sóttu um tímabundna vinnu við þangslátt hjá Þörungaverksmiðjunni sem auglýst var fyrir skömmu en í gær höfðu yfir 90 umsóknir borist. Engin þeirra var hins vegar úr Reykhólahreppi.
Eitthvað er um húsnæði á lausu á Reykhólum en að vísu ekki hjá hreppnum um þessar mundir. Ekki strandar á plássi í leikskóla og grunnskóla á Reykhólum.
Í þeim vandræðum sem hér um ræðir bætir ekki úr skák sú annars mjög ánægjulega staðreynd að hátt í tugur kvenna í sveitarfélaginu er í fæðingarorlofi og vísbendingar um að þeim fjölgi enn á næstunni.
Meðal vinnustaða á Reykhólum þar sem illa hefur gengið að fá fólk er Hjúkrunar- og dvalarheimilið Barmahlíð. Stjórn Barmahlíðar kom saman til fundar í síðustu viku og var aðeins eitt mál á dagskrá. Eftirfarandi var bókað:
- Rætt um starfsmannamál í Barmahlíð. Vöntun er á starfsfólki, dæmi eru um að fólk áhugasamt um störf gerir kröfu um frítt húsnæði og/eða fæði meðan á dvöl stendur til styttri eða lengri tíma.
- Sveitarstjórn Reykhólahrepps er bundin af kjarasamningum, jafnræði og meðalhófi. Því verður að árétta að um slíkt er ekki hægt að semja.
Hlynur, sunnudagur 01 september kl: 00:29
"Eitthvað er um húsnæði á lausu á Reykhólum"
en er það húsnæði til leigu?