Ingi Garðar jarðsunginn á fimmtudag
Ingi Garðar Sigurðsson, fyrrum tilraunastjóri á Reykhólum, verður jarðsunginn í Árbæjarkirkju í Reykjavík kl. 13 á fimmtudag, 3. janúar. Hann andaðist á Landakoti 16. desember, 81 árs að aldri. Eftirlifandi eiginkona hans er Kristrún Marinósdóttir. Sonur þeirra er Hörður Ævarr Ingason.
Tilraunastöð ríkisins í sauðfjárrækt starfaði á Reykhólum um áratugaskeið. Forstöðumaður hennar (tilraunastjóri) frá upphafi árið 1947 og til 1963 var Sigurður Elíasson, en þá tók Ingi Garðar við og gegndi starfi tilraunastjóra allt þar til stöðin var lögð niður árið 1990.
Ingi Garðar Sigurðsson var Húnvetningur að uppruna. Hann var búfræðikandídat frá Hvanneyri og vann hjá Búnaðarsambandi Eyfirðinga þangað til hann tók við tilraunastöðinni á Reykhólum liðlega þrítugur.
Á nærri þriggja áratuga tíð sinni á Reykhólum starfaði Ingi Garðar mikið að félagsmálum og gegndi mörgum trúnaðarstörfum. Hann var oddviti Reykhólahrepps um árabil, hreppstjóri Reykhólahrepps um langt skeið og formaður sóknarnefndar Reykhólasóknar. Ingi Garðar var einn af frumkvöðlum að stofnun Þörungavinnslunnar á Reykhólum og var stjórnarformaður hennar.
Kristrún eiginkona Inga Garðars var einnig framarlega í félagsmálum og var m.a. formaður Kvenfélagsins Liljunnar í Reykhólahreppi.