16. október 2010 |
Ingibjörg Birna kemur hingað úr Hvalfjarðarsveitinni
Ingibjörg Birna Erlingsdóttir.
Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, viðtakandi sveitarstjóri Reykhólahrepps, er 39 ára og hefur undanfarin ár starfað hjá sveitarfélaginu Hvalfjarðarsveit, fyrst sem ritari og síðan sem skrifstofustjóri. Hún lauk á sínum tíma stúdentsprófi af hagfræðibraut frá Flensborg í Hafnarfirði og hefur síðan lokið margvíslegum námskeiðum sem gagnast í starfinu. Enda þótt Ingibjörg Birna hafi enn ekki tekið formlega við starfi sveitarstjóra gerði hún það samt í raun í gær þegar hún sat fjármálaráðstefnu sveitarfélaga syðra fyrir hönd Reykhólahrepps.
Eiginmaður Ingibjargar Birnu er Hjalti Hafþórsson verktaki og bátasmiður, sem hefur alla tíð verið einn af forsprökkum Bátasafns Breiðafjarðar á Reykhólum og er umsjónarmaður vefsíðu safnsins. Þau eiga orðið vænan hóp barna og barnabarna.
Ingibjörg Birna er fædd á Patreksfirði og uppalin þar til fjögurra ára aldurs, þegar hún fluttist til Hafnarfjarðar, og hefur ávallt borið sterkar taugar vestur á bóginn. Hún kveðst hlakka mikið til að flytjast til Reykhóla og að fá að kynnast íbúum sveitarfélagsins og lifa og starfa með þeim.
Bylgja Hafþórsdóttir, sunnudagur 17 oktber kl: 18:21
Óska Reykhólabúum og nærsveitarmönnum til hamingju með nýja sveitarstjórann. Hefðuð ekki getað fengið betri manneskju í starfið.