Tenglar

22. desember 2014 |

Ingibjörg í Garpsdal og þjónustan í héraðinu

Hús HVE á Reykhólum. Búið að læsa hjúkrunarfræðinginn í Barmahlíð úti.
Hús HVE á Reykhólum. Búið að læsa hjúkrunarfræðinginn í Barmahlíð úti.

„Sögurnar af Ingibjörgu eru margar, og því ótrúlegri sem þær eru, þeim mun líklegri eru þær að vera sannar,“ segir Sigurbjörn Sveinsson læknir. Þar talar hann um Ingibjörgu Kristjánsdóttur hjúkrunarfræðing í Garpsdal við Gilsfjörð. Hann segir hana hugaða og mikinn ferðamann, „sem komst yfirleitt allt sem hún ætlaði sér, hvort sem hún var á Bens eða jeppa. Og aldrei var Hafliði langt undan, úrræðagóður og rólegur með sína hjálpandi hönd.“

 

Þannig komst Sigurbjörn læknir að orði í athugasemdadálkinum við frétt sem birt var hér á Reykhólavefnum á föstudag undir fyrirsögninni Hér var einu sinni rekið ágætis lyfjaútibú. Þegar hann setti þar inn tvenn tilskrif sín í gærkvöldi var fréttin orðin sú neðsta á forsíðunni og hvarf mjög fljótlega þar niður fyrir.

 

Í upphaflegri frétt var sagt frá samþykkt sveitarstjórnar Reykhólahrepps, þar sem lýst var áhyggjum vegna þess að ekki væri lengur hjúkrunarfræðingur starfandi í Reykhólahreppi á vegum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands eins og verið hefur eins lengi og elstu menn muna.

 

Í framhaldsfrétt hér á vefnum var birt það sem Björk Stefánsdóttir á Reykhólum skrifaði á Facebook af þessu tilefni. Jafnframt hefur fólk sem rætt hefur við umsjónarmann þessa vefjar sagt að þessi nýja tilhögun sé ekki aðeins undarleg heldur fráleit eða lífshættuleg eða að hún lýsi fyrirlitningu á landsbyggðarfólki.

 

Ekki er lengur aðgangur að neyðarlyfjabúri í heilsugæslunni á Reykhólum eins og verið hefur eins lengi og fólk rekur minni til.

 

Sigurbjörn læknir talar líka í gamansömum dúr enda er húmorinn þeim manni nærtækur í bland við alvöruna. Hann segir: 

  • Sigurgeir heitinn Tómasson hafði jafnan á orði að ég væri ekki bjargarlaus, þegar Ingibjörg var með í för. Annars kallaði hann hana aldrei neitt annað en Ingeborg. Það ætti auðvitað að vera búið að krossa Ingibjörgu fyrir löngu. Austur-Barðstrendingar ættu að sjá til þess.

 

Um Ingibjörgu í Garpsdal segir Steinunn Rasmus á Reykhólum: 

  • Dóttir mín þurfti reglulega að fá blóðaukandi lyf í sprautuformi. Lyfin voru henni mjög nauðsynleg. Alltaf var passað upp á að þau væru til á heilsugæslunni á Reykhólum, einng var Ingibjörg með öryggisskammt heima hjá sér og við vorum líka með þessi lyf heima.
  • Við vorum að fara suður í enn eina læknaferðina og það var kominn tími á sprautu, mátti helst ekki bíða einn dag, varð að vera reglulegt. Það var leiðindaveður en samt þokkalega fært. Við komum við í Garpsdal, þar var ansi dimmt, skafrenningur og bara leiðindaveður.
  • Dóttir mín átti ekki allt of gott með gang á þessum tíma, en það var ekki vandamál hjá Ingibjörgu okkar. Málið var einfalt, hún sagðist eiga miklu auðveldara með að fara út í bíl til hennar en dóttur okkar að krönglast inn í hús til hennar. Hún fór því einfaldlega út til hennar og hún fékk sína sprautu í handlegginn úti í bíl. Enginn vandræðagangur þar frekar en fyrri daginn.

 

Þrymur Sveinsson frá Miðhúsum í Reykhólasveit segir: 

  • Sveitungar mínir að minni fjölskyldu meðtaldri meðan við áttum fasta búsetu vestra vorum stálheppin að vera yfirleitt heilsugóð og þurfa sjaldan á læknisþjónustu að halda. Mikið vetrarríki hamlaði samgöngum um Svínadal og Gilsfjörð fyrir lagningu brúarinnar. Það var okkur sannarlega til láns að eiga Ingibjörgu Kristjánsdóttur hjúkrunarfræðing í Garpsdal þegar mikið lá við. Alltaf var hún til taks, ráðagóð og vann fumlaust líknandi verk, oft við erfiðar aðstæður. Ég veit ekki hvort við hefðum verið eins heppin hefði ekki verið lyfjabúr á Reykhólum og hjúkrunarfræðingur staðsettur á svæðinu norðan Gilsfjarðar. Mér finnst sannarlega vert að geta þess sem vel er gert og þeirrar þjónustu sem er hreint ekki sjálfgefin.

 

Sigurbjörn Sveinsson var á sínum tíma heilsugæslulæknir í Búðardal (mestan hluta níunda áratugar liðinnar aldar) og þar með læknir fólksins í Austur-Barðastrandarsýslu. Hann var formaður Læknafélags Íslands í mörg ár og hefur gegnt ýmsum öðrum trúnaðarstörfum á vettvangi sínum. Núna síðari árin hefur hann gert mikið af því að koma vestur og leysa af í fríum Þórðar Ingólfssonar yfirlæknis í Búðardal og haldið með því sambandi við sitt gamla læknishérað og fólkið sem hann kynntist svo vel.

 

Sjá hér fréttina sem vitnað er til og umræðurnar í heild

 

Athugasemdir

Jóhanna Fríða Dalkvist, mnudagur 19 janar kl: 21:00

Ég skoðaði það fyrir nokkrum árum hvað þyrfti til að tilnefna fólk til fálkaorðunnar og þá var ég einmitt með Ingibjörgu í huga. Ég hefði átt að halda áfram með það, en það er ekki of seint, mælist til þess að hreppsnefndin taki þetta að sér :)

Gunnar Dalkvist, fimmtudagur 24 desember kl: 21:45

Sammála bæði Hönnu og Stebba fálkaorðuna og gera hana að heiðursborgara.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31