Tenglar

30. júlí 2008 |

Innsigling Reykhólahafnar dýpkuð

Dráttarbáturinn kemur með gröfuprammann.
Dráttarbáturinn kemur með gröfuprammann.
1 af 2

Vinna við dýpkun innsiglingarinnar í Reykhólahöfn byrjaði í dag, en verkið er í höndum Björgunar ehf. Í gærkvöldi kom dráttarbátur með flutningspramma (efnispramma) og í nótt kom dýpkunarskipið Perla með gröfupramma í togi. Tveir starfsmenn Björgunar munu vinna verkið, þeir Sigurður Þorsteinsson og Sturla Aðalsteinsson, og reikna þeir með að það taki fjórar til sex vikur. Þeir voru orðnir nokkuð lúnir í dag eftir flutninginn á prömmunum og sögðu að lítið hefði verið um svefn síðustu tvo sólarhringana.

 

Dýpkunarskipið (dæluskipið) Perla kemur ekki að öðru leyti við sögu í þessu verki en að draga gröfuprammann. Í fyrra var reynt að nota skipið til að dæla upp úr innsiglingunni en það gekk ekki sem skyldi. Efnið sem upp kom var að mestum hluta leir, settist lítið til í lestinni og flæddi út jafnóðum. Núna verður grafið upp úr innsiglingunni og því sem upp kemur mokað í efnisprammann. Dráttarbáturinn dregur hann síðan þangað sem losað verður úr honum.

 

Tilboð Björgunar ehf. í dýpkunina var 16,3 milljónir króna eða 73,5% af kostnaðaráætlun Siglingastofnunar, sem var 22,2 milljónir króna. Verkið felst í því að dýpka siglingaleiðina inn að bryggju, um 600 m langa og 35 m breiða rennu, niður í fjögurra metra dýpi. Efnismagnið sem taka þarf og flytja brott er áætlað um 21.300 rúmmetrar. Allt efni skal losað í sjó á 30-50 m dýpi í Hrúteyjarröst austan við Æðarkletta, um eina sjómílu frá dýpkunarsvæðinu.

 

Auk Björgunar ehf. bauð Hagtak hf. í verkið. Það tilboð var um 35 milljónir króna eða um 158% af kostnaðaráætlun og þannig meira en tvöfalt hærra en tilboð Björgunar.

 

Reykhólahöfn er í Karlsey, um tvo km framan við þorpið á Reykhólum. Helsti notandinn er Þörungaverksmiðjan, sem er þar á hafnarsvæðinu. Auk þess eru heimamenn þar með báta sína.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31