Tenglar

8. desember 2014 |

Inspired by Iceland: Vestfirðir einn af hornsteinunum

Frá Selárdal við Arnarfjörð.
Frá Selárdal við Arnarfjörð.

Það er af og frá að Vestfirðir séu afskiptir í markaðsátakinu Inspired by Iceland. Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu, segir að Vestfirðir séu einn af hornsteinum áfangastaðarins Íslands og að Íslandsstofa hafi átt í góðu samstarfi við Markaðsstofu Vestfjarða við kynningu á Vestfjörðum.

 

Þannig hefst frétt á bb.is á Ísafirði í dag. Í gær birtist hér á Reykhólavefnum frétt undir fyrirsögninni Risabatteríið „Inspired by Iceland“ hunsar Vestfirði, sem byggð var að mestu á frétt á bb.is eins og tekið var fram. Þessi frétt á bb.is í dag er andsvar við henni. Framhaldið er á þessa leið:

 

Í síðustu viku benti Haukur Sigurðsson á lítinn sýnileika Vestfjarða á Facebooksíðu Inspired by Iceland. Inga Hlín segir að Haukur hafi í lok nóvember sent erindi til Íslandsstofu þar sem hann benti á lítinn sýnileika Vestfjarða á samfélagsmiðlum Inspired by Iceland og hann hafi lagt til myndir frá Vestfjörðum, en birting á þeim voru háðar því að tekið væri fram fyrirtæki hans Aurora Arktika í stöðufærslum.

 

„Erindið hefur verið tekið til skoðunar en Inspired by Iceland er markaðsverkefni sem styður við kynningu á Íslandi í heild sinni en ekki einstaka fyrirtækjum eða landshlutum,“ segir Inga Hlín, og bætir við að birtingaráætlun er unnin fram í tímann af mörgum aðilum og því ekki óeðlilegt að efni frá Hauki hafi ekki enn komið til birtingar.

 

Hún segir að samfélagsmiðlar eins og Facebook séu einn hluti af markaðsstarfi Íslandsstofu á erlendum mörkuðum og bendir á að ein af sex aðal „brandljósmyndum“ Inspired by Iceland var tekin í Selárdal í Arnarfirði og var nýtt mikið í auglýsingar úti á mörkuðum sem og sýningum og í öðru kynningarefni og verður myndin áfram nýtt.

 

Hún bendir einnig á að í Share the Secret markaðsátaki Inspired by Iceland í ár og í fyrra var safnað 15 „leyndarmálum“ frá Vestfjörðum, í góðu samstarfi við Markaðsstofu Vestfjarða, og gerð aðgengileg á síðu átaksins á stafrænu korti. Miklu hafi verið varið í auglýsingar, samfélagsmiðla og almannatengsl til að auka vitund og heimsóknir á þetta stafræna kort sem og leyndarmál. Í tengslum við markaðsátakið voru framleidd fimm myndbönd frá Vestfjörðum og samanlagt hafa þau verið spiluð yfir 8 þúsund sinnum.

 

Í október stóð Íslandsstofa fyrir tveimur fjölmiðlaferðum til Vestfjarða með áhrifamiklum erlendum fjölmiðlum á lykilmarkaðssvæðum sem og samfélagsmiðlum. Að sögn Ingu Hlínar voru í fyrri ferðinni blaðamenn frá The Guardian, National Geographic Traveller, Marie Claire, The Sun og Men‘s Health. Í seinni blaðamannaferðinni heimsótti blaðamaðurinn Markus Löblein Vestfirði fyrir miðilinn GQ í Þýskalandi og má lesa afrakstur ferðarinnar hér.

 

Markaðsstofa Vestfjarða hefur farið tvisvar með Íslandsstofu á erlendar sýningar í samstarfi með Íslandsstofu síðastliðin tvö ár. Annars vegar World Travel Market í London og ITB í Berlín, sem eru tvær stærstu ferðasýningarnar sem Íslandsstofa tekur þátt í. Íslandsstofa heimsótti einnig sjávarútvegs- og matvælafyrirtæki á Vestfjörðum í júní 2014 til að kynna sér starfsemi á svæðinu og hvernig nýta megi það í erlendri kynningu og Patreksfjörður var valinn sem tökustaður fyrir kynningarmyndband um íslenskan saltfisk.

 

„Ávallt er reynt að gæta jafnræðis milli landshluta í öllu markaðsefni Ísland – allt árið, svo sem fjölmiðlaferðum, kynningum, sýningum, auglýsingabirtingum, vefsíðum, myndböndum, viðburðum og tenglastarfi. Við eigum afar gott samstarf við Vestfirði og það er ávallt að eflast og við höfum þá trú að Vestfirðir muni auka sinn hlut í framtíðinni í markaðssetningu og fjölda ferðamanna yfir árið,“ segir Inga Hlín.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31