26. júlí 2016 |
Írskir dagar án tónlistar?
Gömlu dráttarvélarnar eru fastur og sjálfsagður liður á Reykhóladögum. Byggðarhátíð í Reykhólahreppi án þeirra væri eins og Írskir dagar án tónlistar eða Danskir dagar án spægipylsu. Traktorunum gömlu í „skrúðgöngu“ og þrautakeppni á Reykhóladögum fjölgar með hverju árinu. Að sama skapi fjölgar gestum sem fylgjast með og nota um leið tækifærið til að sýna sig og sjá aðra.
Svipmyndirnar sem hér fylgja frá „dráttarvélarallinu“ á túninu við Báta- og hlunnindasýninguna á Reykhólum á laugardaginn tók Ólafía Sigurvinsdóttir. Eins og sjá má voru fleiri gamlar vélar á ferð en dráttarvélar: Þessi gula sem virðist vera að koma út úr kirkjuturninum er árgerð 1946.