Tenglar

16. ágúst 2016 |

Íslandsmótið í hrútadómum á sunnudag

Myndir: Sauðfjársetur á Ströndum.
Myndir: Sauðfjársetur á Ströndum.
1 af 2

Mikið hefur verið um að vera á Sauðfjársetrinu á Ströndum í sumar, margvíslegar uppákomur og viðburðir. Framundan er stærsta samkoma ársins, Íslandsmeistaramótið í hrútadómum, sem verður í Sævangi við Steingrímsfjörð á sunnudag, 21. ágúst, og hefst kl. 14. Jafnan er góð þátttaka í hrútadómunum, bæði í flokki þaulreyndra hrútadómara og líka í flokki óvanra hrútaþuklara. Að venju verður kjötsúpa á boðstólum í hádeginu og kaffihlaðborð allan liðlangan daginn.

 

Síðasta ár sigraði Guðmundur Gunnarsson bóndi á Kjarlaksvöllum í Saurbæ, í öðru sæti var Vilberg Þráinsson á Hríshóli í Reykhólasveit og í þriðja sæti Bjarki Reynisson á Kjarlaksvöllum (sjá nánar hér).

 

Á Sauðfjársetrinu eru nú uppi þrjár sérsýningar, fyrir utan fastasýningu safnsins sem ber yfirskriftina Sauðfé í sögu þjóðar. Í kaffistofunni er sýningin Manstu? sem er greiningarsýning á ljósmyndum Tryggva Samúelssonar sem voru teknar á árabilinu 1950-1970. Á listasviðinu er sýningin Álagablettir og í sérsýningarherbergi verður opnuð ný sýning í byjun september sem ber yfirskriftina Sumardvöl í sveit.

 

Nú er annað árið sem Náttúrubarnaskóli á vegum Sauðfjársetursins er starfræktur. Yfirnáttúrubarnið Dagrún Ósk Jónsdóttir hefur umsjón með verkefninu sem hefur tekist mjög vel.

 

Safnið verður opið alla daga kl. 10-18 út ágúst. Í haust er síðan stefnt að frekari viðburðum. Þá verða meðal annars þjóðtrúarkvöldvaka, handverksnámskeið o.fl. Árleg sviðaveisla verður síðan haldin í október.

 

Nánari upplýsingar í síma 693-3474.

 

(Frá Sauðfjársetrinu á Ströndum).

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31