Tenglar

13. janúar 2016 |

Íslenskt, já takk?

Einar Freyr Elínarson.
Einar Freyr Elínarson.

Eins og margir vita eru væntanlegir nýir búvörusamningar milli ríkis og bænda. Þessir samningar munu ákvarða starfsskilyrði landbúnaðarins og bændur hafa beðið þeirra með nokkurri eftirvæntingu.

 

Það hefur verið mörgum bændum erfitt að vita ekki hvað tekur við þegar skrifað verður undir nýja samninga. Margir hafa haldið að sér höndum við framkvæmdir og sérstaklega við kaup á kvóta. Óvissan gerir áætlanagerð til langs tíma í búrekstrinum erfiða og ómarkvissa.

 

Það ríkir því mikil spenna hjá okkur bændum um þessar mundir.

 

Þetta segir Einar Freyr Elínarson, sauðfjárbóndi í Sólheimahjáleigu í Mýrdal og formaður Samtaka ungra bænda, í upphafi greinar sem hann skrifar í Fréttablaðið í dag undir ofanritaðri fyrirsögn. Þar segir hann einnig meðal annars:

 

Forstjóri Haga, Finnur Árnason, hljóp nokkuð harkalega á sig í grein í áramótablaði Viðskiptablaðsins. Þar skrifar hann um nýja búvörusamninga milli ríkis og bænda. Við lok lestursins þarf maður að minna sig á að þarna skrifar forstjóri stórrar verslunar því þar virtist frekar fara sjálfskipaður talsmaður neytenda. Þau hlutverk fara ekkert sérstaklega vel saman.

 

Forstjórinn gerist þar meira að segja svo djarfur að líkja búvörusamningum við Icesave-samningana sem þjóðin felldi. Það er í besta falli barnalegt og í versta falli rætin tilraun til að slá ryki í augun á fólki. Forstjórinn lætur sem hann skilji ekki muninn á samningi sem heldur fjármunum innan íslenska hagkerfisins eða samningi sem felur í sér að hundruð milljarða flæði út úr hagkerfinu.

 

[- - -]

 

Forstjórinn fullyrðir líka að með samningnum sé verið að viðhalda úreltu landbúnaðarkerfi. Staðreynd málsins er hins vegar sú að allar líkur eru á því að nýr samningur umbylti landbúnaðarkerfinu. Enda ekki vanþörf á.

 

[- - -]

 

Íslenskir bændur eru stoltir af vörunum sem við bjóðum neytendum. Við höldum því ekki fram að við séum endilega mikið betri bændur en erlendir kollegar okkar. Við erum hins vegar vel í sveit settir, þó að við leyfum okkur að bölva veðrinu með reglulegu millibili.

 

Dýrin okkar eru heilbrigð og landið okkar er ómengað, eins og tölur um notkun lyfja og illgresiseyða sýna. Víða stefnir í óefni vegna ótæpilegrar notkunar sýklalyfja og víða er jarð- vegur illa farinn vegna mikils álags. Áherslan á okkar sérkenni mun því að öllum líkum aukast þegar fram líða stundir.

 

Það er þó ekki svo að okkar landbúnaður sé fullkominn. Víða má gera betur þegar kemur að aðbúnaði skepna. Samtök ungra bænda hafa lagt sérstaka áherslu á að endurskoða þurfi nálgun og eftirfylgni þegar kemur að málum er varða dýravelferð.

 

[- - -]

 

Nýir samningar verða vonandi til þess að ungt fólk getur látið drauminn um að hefja búskap rætast. Það er nefnilega heilmikill áhugi fyrir búskap hjá ungu fólki. Ásókn í búfræðinám er mikil og þaðan er útskrifað fólk sem hefur metnað til þess að framleiða góðan mat á sem hagkvæmastan hátt.

 

Vonandi verða nýir búvörusamningar til þess að starfsumhverfi bænda verði þannig að búskapur standi undir mannsæmandi launum.

 

Vonandi verður samhliða þessu farið í að bæta búsetuskilyrði á landsbyggðinni, t.a.m. með ljósleiðaravæðingu og bættum samgöngum.

 

Vonandi skilja sem flestir að stuðningur við landbúnað er kerfi sem flestar þjóðir heims velja sér til þess að tryggja innlenda matvælaframleiðslu, ekki séríslenskt fyrirbrigði.

 

Vonandi voru allir ánægðir með afurðir okkar bænda á seinasta ári. Við munum að sjálfsögðu reyna að gera enn betur á því nýja.

 

Athugasemdir

Gunnar Dalkvist, mivikudagur 13 janar kl: 09:14

Ný samningur umbylti landbúnaðarkerfinu, þar finnst mér að menn séu að gera mjög mikill mistök

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31