28. maí 2010 |
Jafnvel aðeins eitt nafn á kjörseðli nægir
Einhver vafi hefur verið á kreiki varðandi það hversu mörg nöfn skuli rita á kjörseðil í óbundinni kosningu eins og í Reykhólahreppi núna. Þetta kemur meðal annars fram í athugasemdum neðan við frétt hér í gær. Í morgun var spurst fyrir um þetta atriði hjá dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu. Svar hefur borist frá Hjalta Zóphóníassyni skrifstofustjóra, sem tekur af öll tvímæli. Að vísu þykir það ágalli ef aðeins eitt nafn er á kjörseðli en hann er engu að síður gildur.
Svar Hjalta við fyrirspurninni er orðrétt á þessa leið:
„Við höfum fengið þá lögskýringu í arf frá félagsmálaráðuneytinu að það sé ágalli á kjörseðli ef aðeins er eitt nafn, en að hann sé eigi að síður gildur. Við höfum því, líkt og sýslumaður, sagt að seðill sé gildur ef menn skrifa aðeins eitt nafn eða fleiri allt upp í heildarfjöldann. Varðandi varamenn þá skal tilgreina þá í þeiri röð sem kjósandi kýs að þeir taki sæti."
Sjá einnig auglýsingu kjörstjórnar í Reykhólahreppi um kosninguna þar sem allar helstu upplýsingar koma fram.