Jákvæð niðurstaða ársreiknings Reykhólahrepps
Ársreikningur Reykhólahrepps 2021 var samþykktur eftir síðari umræðu á fundi sveitarstjórnar 23. júní sl.
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 697,4 millj. kr. samkvæmt rekstrarreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 481,5 millj. kr.
Álagningarhlutfall útsvars var 14,52%, sem er lögbundið hámark þess. Álagningarhlutfall fasteignaskatts í A-flokki nam 0,5% sem er lögbundið hámark þess, í B-flokki nam álagningarhlutfall 1,32% sem er lögbundið hlutfall og í C flokki nam álagningarhlutfallið 1,65% sem er lögbundið hámark þess með álagi.
Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt ársreikningi A og B hluta var jákvæð um 34,1 millj. kr., en rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 8 millj. kr. samkvæmt rekstrarreikningi.
Heildareignir sveitarfélagsins námu 688 millj. kr. og heildarskuldir 173,2 millj. kr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 514,8 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta nam 420,1 millj. kr.
Sveitarstjórn bókaði sérstakar þakkir til lykilstarfsfólks sveitarfélagsins fyrir ábyrga meðferð fjármuna, ekki síst Ingibjargar Birnu sveitarstjóra fyrir góða yfirsýn og metnað í fjármálum sveitarfélagsins. Einnig til starfsfólks skrifstofunnar.