Jamie Lee á N4 næsta mánudag
Dagskrárkynning frá sjónvarpsstöðinni N4:
Í næsta þætti af Að Vestan heimsækjum við grafíska hönnuðinn Jamie Lee í Króksfjarðarnesi. Hún er fædd í San Fransisco, alin upp í Hong Kong og núna býr hún í litlu þorpi á nesinu á milli Króksfjarðar og Gilsfjarðar, syðst á Vestfjörðum.
Íslensk náttúra er það sem rígheldur í Jamie, hún hefur mikinn áhuga á sölvum og fer margar ferðir út á fjörurnar til þess að rannsaka söl. Útsýnið og dýralífið á staðnum er líka magnað. Einu sinni sá hún haförn, fálka og ref, allt sama daginn.
Kynnumst Jamie og fleiri Vestfirðingum í næsta þætti, á mánudaginn kl. 20 á N4.
Til gamans má geta þess, að við undirbúning þáttarins birti Rakel Hinriksdóttir mynd af fjalli á fb. og spurði um heiti þess. Hún fékk svör úr ýmsum áttum en ekki öll samhljóða.
Umrætt fjall, sem er í bakgrunni á myndinni af Jamie, er Neshyrnan sem á flestum kortum er einnig merkt sem Króksfjarðarmúli. Á örnefnasjá Landmælinga Íslands eru bæði heitin, af því er hægt að draga þá ályktun að Neshyrnan sé fremst á Króksfjarðarmúlanum. Við höldum auðvitað bara áfram að tala um Neshyrnuna eða Hyrnuna.