Tenglar

11. nóvember 2014 | vefstjori@reykholar.is

Jensína Andrésdóttir frá Þórisstöðum 105 ára

Jensína Andrésdóttir á 105 ára afmælinu sínu. Ljósm. Morgunblaðið / Þórður.
Jensína Andrésdóttir á 105 ára afmælinu sínu. Ljósm. Morgunblaðið / Þórður.

Vinir og ættingjar samglöddust í gær Jensínu Andrésdóttur, sem þá varð 105 ára. Hún fæddist á Þórisstöðum í Gufudalssókn í Austur-Barðastrandarsýslu 10. nóvember 1909 og ólst þar upp í hópi fimmtán systkina. Hún fór ung að heiman og var vinnukona á sveitabæ við Ísafjarðardjúp í tvo vetur en fór síðan til systur sinnar sem átti 12 börn og hjálpaði við heimilishaldið. Lengst af bjó Jensína, sem aldrei giftist eða eignaðist börn, í Reykjavík og sinnti gjarnan ræstingum og þjónustustörfum ýmiss konar.

 

Frá þessu er greint í frétt Sigurðar Boga Sævarssonar blaðamanns í Morgunblaðinu í dag.

 

Jensína hefur dvalist á Hrafnistu í Reykjavík síðustu sautján árin. Að sögn Sigurdísar Halldórsdóttur, systurdóttur Jensínu, er hún enn þokkalega ern miðað við aldur. Hefur daglega fótavist og matast með öðru Hrafnistufólki, þótt þrekið fari dvínandi og úthaldið sé lítið eins og eðlilegt er, miðað við hve mörg árin eru orðin, segir í fréttinni.

 

 

Á vefnum Langlífi sem Jónas Ragnarsson heldur úti segir:

  • Fyrir tveimur árum var birt viðtal við Jensínu á vef Hrafnistu, en þar hefur hún verið síðan fyrir aldamót. Fram kom að þegar hún fór að heiman gerðist hún vinnukona við Ísafjarðardjúp í tvo vetur en fór síðan til systur sinnar sem átti 12 börn og hjálpaði við heimilishaldið.
  • „Ég lærði að sauma einn vetur en fékk mænuveikina 1955-1956 og lamaðist öðrum megin og þá gat ég lítið gert. Síðar í sveitinni fór ég þó að slá með orfi og ljá. Þá vann ég hjá nokkrum læknum við að þrífa læknastofur en lömunin hefur alltaf háð mér.“
  • Þegar Jensína var spurð hvort þvottavélar hefðu ekki breytt miklu fyrir heimilishaldið svaraði hún: „Nei, nei, ég hef aldrei þvegið þvott í þvottavél, maður skolaði bara í læknum í sveitinni, bara berja klakann af og svo lagði maður þvottinn frá sér og þegar maður var búinn að því, við eld, þá byrjaði maður að vinda. Það var sko ekkert sældarlíf.

 

Því má bæta hér við, að fyrir um tuttugu árum dvaldist Jensína um tíma í Barmahlíð á Reykhólum.

 

Sjá einnig samantektir sem birtust hér á vefnum í ársbyrjun 2013:

06.01.2013 Fjórar konur úr héraðinu sem náð hafa 103 ára aldri

07.01.2013 Ættmóðirin Sesselja Jónsdóttir úr Svefneyjum

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30