Tenglar

25. apríl 2019 | Sveinn Ragnarsson

Jensína Andrésdóttir lést um páskana

Jensína Andrésdóttir á 105 ára afmælinu. mynd, mbl.
Jensína Andrésdóttir á 105 ára afmælinu. mynd, mbl.

Jensína Andrésdóttir á Hrafnistu í Reykjavík lést 18. apríl, 109 ára og 159 daga. Í janúar náði hún þeim áfanga að verða elst allra sem hafa átt heima hér á landi. Hún var í fimmta eða sjötta sæti yfir elstu íbúa á Norðurlöndum.


Jensína var fædd 10. nóvember 1909 á Þórisstöðum við Þorskafjörð í Austur-Barðastrandarsýslu, tólfta af fimmtán börnum Andrésar Sigurðssonar bónda og Guðrúnar Sigríðar Jónsdóttur. Hún var vinnukona á Vestfjörðum en flutti til Reykjavíkur fyrir miðja síðustu öld og vann meðal annars við ræstingar. Jensína var á Hrafnistu í rúma tvo áratugi. Meðfylgjandi mynd af Jensínu birtist í Morgunblaðinu þegar hún var 105 ára.


Aðeins fjórir aðrir Íslendingar hafa náð 109 ára aldri. Guðrún Björnsdóttir hefur orðið elst, 109 ár og 310 daga, en hún var fædd í Vopnafirði haustið 1888 og var þriggja ára þegar hún flutti til Kanada með foreldrum sínum og systkinum. Segja má að Jensína hafi átt Íslandsmetið en Guðrún Íslendingametið.


Alls hafa 26 Íslendingar náð 106 ára aldri og er Georg Breiðfjörð Ólafsson í Stykkishólmi eini karlinn í þeim hópi en hann varð 107 ára og 333 daga.


Dóra Ólafsdóttir í Kópavogi er elsti núlifandi Íslendingurinn en hún varð 106 ára í júlí í fyrra. Guðríður Guðmundsdóttir er næstelst, 104 ára, og Lárus Sigfússon er í þriðja sæti og jafnframt elstur karlmanna, 104 ára.


Jónas Ragnarsson

 

Hér er grein sem birtist í tilefni af 105 ára afmæli Jensínu.

  

Athugasemdir

Dalli, fimmtudagur 25 aprl kl: 11:31

Einnig var hún einhver ár á Dvalarheimilinu Barmahlíð. Blessuð sé minning hennar

Jónas Ragnarsson, fstudagur 26 aprl kl: 12:33

Hún var þar 1994 og hugsanlega þangað til hún fór á Hrafnistu.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31