26. desember 2015 |
Jólaballið árvissa á Reykhólum
Jólaball Kvenfélagsins Kötlu verður með hefðbundnum hætti í íþróttahúsinu á Reykhólum á morgun, sunnudag, og hefst kl. 14. Allir eru velkomnir, ungir og gamlir og allt þar á milli, og gaman þætti kvenfélagskonum að sjá sem flesta. Aðgangur er ókeypis eins og verið hefur. Dansað verður kringum jólatréð við undirleik Steinunnar Ó. Rasmus og Lovísa Ósk Jónsdóttir syngur. Jólasveinar koma í heimsókn og verða með eitthvað í pokunum, kannski mandarínur ofan úr Vaðalfjöllum og fleira.
Í boði kvenfélagsins verður á borðum kaffi ásamt ríkulegu meðlæti, svo sem tertum af ólíku tagi, skúffukökum, brauðréttum og smákökum, kexi og ostum. Allt heimabakað og heimagert nema kexið og ostarnir.