Jólahangikjötið frá Stað langt komið að seljast upp
Félagsbúið á Stað á Reykjanesi er eina býlið í Reykhólahreppi sem er í samtökunum Beint frá býli, félagi heimavinnsluaðila, sem stofnuð voru fyrir tæpum sjö árum. Frá Reykskemmunni á Stað er í boði heimareykt hangikjöt af lömbum, veturgömlu og sauðum, hvort heldur eru læri, hryggir eða frampartar í rúllum eða bitum, svo og bjúgu, rúllupylsa og reyktur rauðmagi. Á Stað fæst líka æðardúnn og æðardúnssængur.
Heimilisfólkið á Stað segir að núna sé komið miklu meira af pöntunum á hangikjöti en á sama tíma í fyrra, og var þó salan fyrir jólin síðustu mjög góð. Margir taki líka bjúgnapakka með.
Núna er jólahangikjötið frá Stað komið langleiðina að seljast upp. Þeir sem vilja að tryggja sér þetta ekta sveitahangikjöt frá grösugum beitilendum við norðanverðan Breiðafjörð ættu þess vegna að panta sem fyrst.
Vörurnar frá Stað eru sendar hvert á land sem er. Auk þess er hægt að koma í heimsókn og versla beint við heimilisfólkið.
Myndirnar sem hér fylgja voru teknar á Stað fyrir skömmu þegar verið var að taka niður bjúgu til pökkunar.
P.s.: Pylsur þær allgildvaxnar og matarmiklar sem oftast eru nefndar bjúgu eiga eða hafa átt sér ýmis fleiri heiti eftir landshlutum, líkt og algengt er. Þar á meðal eru sperðill, ítroðningur og grjúpán, auk þess sem orðið bjúga á sér þegnrétt í íslensku máli bæði í hvorugkyni og kvenkyni (bjúgun eða bjúgurnar) þó svo að hvorugkynið sé og hafi alltaf verið langtum algengara.
Halldóra Guðmundsdóttir, mivikudagur 03 desember kl: 17:30
Enda best í heimi :)