15. desember 2009 |
Jólaminningar Strandagaldurs á hverjum degi
Daginn þegar fyrsti jólasveinninn kom til byggða byrjaði jóladagatal Strandagaldurs á vefnum strandir.is. Um er að ræða myndskeið þar sem Strandamenn á öllum aldri greina frá jólaminningum sínum. Engilbert Ingvarsson reið á vaðið á laugardaginn. Hann er fæddur og uppalinn á Snæfjallaströnd við Ísafjarðardjúp og bjó fyrstu ár ævi sinnnar í gömlum torfbæ í Unaðsdal. Hann lýsir því meðal annars hvernig faðir hans gerði mót fyrir smákökubaksturinn úr blikki utan af sykurkössum og hvernig annar undirbúningur fyrir jólin fór fram, svo sem gerð jólaskrautsins. Hann segir líka frá eftirminnilegri jólagjöf sem hann fékk á þessum árum, sauðsvörtum sokkum sem náðu upp á lærin.
Síðan bætist ein frásögn við á hverjum degi og komnar eru á vefinn í kjölfar Engilberts þær Barbara Ósk Guðbjartsdóttir, Sigríður Óladóttir og Aðalheiður Ragnarsdóttir.
Beinn tengill á jóladagatal Strandagaldurs