Tenglar

3. desember 2012 |

Jólasálmur Eysteins á aðventuhátíð á Reykhólum

Barmahlíð á Reykhólum.
Barmahlíð á Reykhólum.

Jólasálmur eftir Eystein heitinn í Skáleyjum undir einu þekktasta jólalagi allra tíma verður sunginn á aðventukvöldi Reykhólakirkju, sem verður annað kvöld, þriðjudag, og hefst kl. 20. Hátíðin verður að þessu sinni í Barmahlíð á Reykhólum og allir eru að sjálfsögðu velkomnir að taka þátt í gleðinni. Viðar Guðmundsson leikur undir hjá Kirkjukór Reykhólaprestakalls af sinni alkunnu snilld og almennum safnaðarsöng einnig. Sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir sóknarprestur flytur kertaljósahugleiðingu.

 

Í lokin er í boði heitt súkkulaði með rjóma en fólk er beðið að koma með aðrar veitingar. Tilvalið er að hafa smákökusmakk meðferðis - nú eða bara eitthvað annað gott.

 

Eysteinn G. Gíslason (Eysteinn í Skáleyjum) andaðist á nýliðnu sumri í Barmahlíð, þar sem hann dvaldist síðustu árin. Jólasálminn orti hann fyrir liðlega tuttugu árum við lagið fræga Mary's Boy Child og raunar er heitið hið sama: Maríusonur.

 

Lagið Mary's Boy Child er líklega þekktast í flutningi Boney M. árið 1978. Tónskáldið þeldökka Jester Hairston samdi lagið árið 1956 og bæði Harry Belafonte og Mahalia Jackson sungu það inn á plötur sama ár. Síðan hefur það komið út með óteljandi flytjendum um allan heim og má þar nefna svo gerólíka söngvara sem Nat King Cole, Jim Reeves, Roger Whittaker, Nínu og Friðrik, Kiri Te Kanawa, Tom Jones, John Denver og Bryn Terfel.

 

Jólasálmur Eysteins í Skáleyjum er birtur hér fyrir neðan. Ekki væri verra ef einhverjir hátíðargesta myndu læra hann eða hafa meðferðis til að geta tekið undir (hvort heldur í hljóði, hver í sinni sálu, eða hver með sínu nefi).

 

 

Maríusonur

 

Það hugljúfa orð og ævintýr

skal ennþá mönnum sagt:

Á fyrstu jólum jötu í

var Jesúbarnið lagt.

En stjarnan björt af himni hátt

á helgri nóttu skein,

hún lýsti yfir lágan stall

og lítinn mömmusvein.

 

Fjármönnum englar fluttu boð

um fæðing lausnarans,

og hirðar bljúgir beygðu kné

í bæn við jötu hans.

Þeir heyrðu óma englasöng

í ást og þakkargjörð,

um dýrð Guðs föður, frelsun heims

og frið um alla jörð.

 

Maríubarn, við biðjum þess,

þú birtist enn á ný.

Það skortir víða frelsi, frið

og fögnuð veröld í.

Um stillta nótt er stjarna skín

á stofugluggann minn,

ég krýp á jólum, Jesúbarn,

við jötustokkinn þinn.

 

 Helstu æviatriði Eysteins í Skáleyjum og tengingar í kveðskap hans

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31