Jólatré úr Barmahlíð fyrir hreppinn og heimilin
Þeir Egill Sigurgeirsson og Jón Þór Kjartansson reistu í gær hin árvissu hreppsjólatré á Reykhólum, bæði á „Markúsartorginu“ við gatnamót Maríutraðar og Hellisbrautar og við Dvalarheimilið Barmahlíð. Trén eru úr Barmahlíð (þ.e. hlíðinni minni fríðu hans Jóns Thoroddsens, ekki dvalarheimilinu). Þeir sem vilja geta fengið að höggva eða saga sér jólatré í skógræktinni þar gegn hóflegri þóknun, að því tilskildu að það sé gert í samráði við forsvarsmenn Skógræktarfélagsins Bjarkar í Reykhólahreppi enda er ekki sama hvar grisjað er.
Upplýsingar veitir stjórnarfólk í Skógræktarfélaginu Björk, þau Guðlaugur Theódórsson (892 8314), Ingvar Samúelsson (898 7783) og Halldóra Játvarðardóttir (893 7787).
Meðfylgjandi myndir voru teknar í gær. Í dag er annar blær yfir Reykhólahéraði. Þétta og jólalega hundslappadrífu gerði í hægviðri í nótt. Árla morguns var nokkurra sentimetra jafnfallin mjallarbreiða en himinninn orðinn hreinn og stjörnubjartur og máninn hálfur og minnkandi. Nú er að sjá hvort þessi „jólasnjór“ endist til jóla.
Sjá einnig:
22.12.2010 Jólatré höggvin ófrjálsri hendi í Þorskafirði