Tenglar

18. desember 2014 | vefstjori@reykholar.is

Jólaviðtal við yfirlögregluþjóninn á Vestfjörðum

Hlynur Hafberg Snorrason. Myndir: BB/bb.is/Sigurjón J. Sigurðsson.
Hlynur Hafberg Snorrason. Myndir: BB/bb.is/Sigurjón J. Sigurðsson.
1 af 2

Hlynur Hafberg Snorrason er yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum og spannar umdæmi hans allan Vestfjarðakjálkann suður að Gilsfirði. Hann kom til Ísafjarðar tvítugur að aldri síðla árs 1983 og ætlaði að vera þar í löggunni bara þann vetur. En margt fer öðruvísi en ætlað er; þar hitti hann stúlku og þar er hann enn og þau bæði, meira en þrjátíu árum seinna. Hann segist raunar aldrei hafa skilið hvers vegna hann sótti um starf á Ísafirði.

 

„Það hefði verið miklu nær fyrir mig að sækja um í Vestmannaeyjum, eiginlega í túnfætinum þar sem ég ólst upp undir Eyjafjöllum. Maður horfði út til Vestmannaeyja öll uppvaxtarárin og margir af mínum vinum og æskufélögum fóru þangað á vertíð og í fleiri störf og ílentust þar,“ segir hann.

 

„Ég vil nú meina að við stjórnum ekki alveg öllu, og eitthvað varð til þess að ég sótti um á Ísafirði en ekki í Vestmannaeyjum. En þegar ákveðið var að ég færi til Ísafjarðar báðu mamma og systir mín guð að hjálpa sér og prjónuðu á mig lopapeysu. Ég þekkti ekki nokkurn mann á Vestfjörðum og hafði aldrei hingað komið. En Pétur Kr. Hafstein sýslumaður réð mig, var þá sjálfur nýkominn hingað vestur. Eins og ég sagði ætlaði ég svo að fara aftur suður um vorið. En fljótlega kynnist ég Ölmu minni, og þá er nú sagan sögð!“

 

Í jólablaði Bæjarins besta á Ísafirði sem kom út í dag er ítarlegt viðtal við Hlyn, sem Hlynur Þór Magnússon á Reykhólum tók. Brot úr því fara hér á eftir.

__________________

 

 

– Hvernig kynntust þið Alma?

 

„Þannig var, að hún lenti í fremur saklausu umferðaróhappi hérna á Ísafirði. Ég var sendur í það útkall og þar sá ég hana fyrst. Svo hitti ég hana við aðrar aðstæður seinna og kynnin urðu nánari. Mér var sagt seinna að skyldfólki hennar í Skagafirðinum hefði brugðið þegar það heyrði að Alma frænka hefði lent í löggunni. En einhvers staðar verður fólk að hittast í fyrsta sinn!“

 

– Bíllinn þinn vakti athygli á götum Ísafjarðar þennan fyrsta vetur ...

 

Hlynur hlær. „Þegar ég flutti hingað vestur hafði ég keypt mér fjögurra eða fimm ára gamlan Range Rover, þótti nú helvíti bratt á þeim tíma hjá ungum dreng. En þess ber að geta, að ég hef aldrei reykt og aldrei drukkið áfengi, ekki eytt aurunum mínum í slíkt, og með ráðdeild og lánum tókst mér að kaupa þennan bíl. Það vakti nokkra athygli að tvítugur strákur væri að spóka sig á Range Rover.“

__________________

 

Olga Hafberg móðir Hlyns á heima í Reykjavík en Snorri Jónsson faðir hans, íþrótta- og smíðakennari, sem var borinn og barnfæddur Siglfirðingur, dó fyrir nokkrum árum. Þau áttu heima að Skógum undir Eyjafjöllum (Skógaskóla) og þar ólust Hlynur og systkini hans upp.

 

Hlynur er langyngstur fjögurra systkina. Elst er Olga Guðrún Snorradóttir, grunnskólakennari í Garðabæ, síðan er Engilbert Ólafur Hafberg Snorrason, tannlæknir í Hafnarfirði, og þriðji í röðinni er Jón H. B. Snorrason lögfræðingur, aðstoðarlögreglustjóri hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og saksóknari hjá því embætti.

__________________

 

Eins og vonlegt er var Hlynur í Skógaskóla og fór síðan í Menntaskólann við Sund. „Ég var þessi dæmigerði „droppát nemandi“ og kláraði ekki stúdentinn, hreinlega út af námsleiða eða einhverju slíku. Ég var að vinna í hinu og þessu með skólanum, þar á meðal í fiski og við að selja eldhúsinnréttingar, þannig að á endanum var ég meira að vinna en í skóla.“

__________________

 

– Hvað er það erfiðasta í starfi lögreglumannsins, hvað tekur mest á?

 

„Það erfiðasta er að koma að einhverjum hörmungum, svo sem ótímabærum andlátum, hvort sem það eru slys eða eitthvað annað. Sérstaklega eru allir viðkvæmir fyrir því þegar um börn og ungt fólk er að ræða. Og varðandi þessa spurningu væri einkennilegt ef ég nefndi ekki snjóflóðin mannskæðu sem féllu hér á svæðinu fyrir bráðum tveimur áratugum.

 

Svo má líka nefna mannlega harmleiki þegar einhver brýtur alvarlega af sér og bregst þannig sínum nánustu. Það er sannarlega ekki góð tilfinning heldur. Þar á ég ekki við brot gagnvart fjölskyldunni heldur að hún situr eftir í sárum þegar einhver innan hennar gerir sig sekan um alvarlegt afbrot.“

__________________

 

Í viðtalinu er Hlynur meðal annars spurður hvað sé hæft í því sem haldið hefur verið fram, að rannsókn mála hjá lögreglunni á Vestfjörðum gangi stundum óeðlilega hægt. Rætt er um skotvopnamál lögreglunnar, sem voru mjög í fréttum fyrir nokkru, sérstöðu lögregluliða úti á landi í samanburði við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, forvarnastarf VáVest-hópsins í bráðum tuttugu ár og bílskúrsbandið Haltur leiðir blindan. Líka koma við sögu sérkennileg símhringing frá Þorsteini Jóhannessyni yfirlækni á Ísafirði, starf Hlyns í Hvalstöðinni í Hvalfirði í sumarfríum, fiskur í raspi og fylltar kjúklingabringur, jólin á lögreglustöðinni og sitthvað fleira.

 

 

Viðtalið má lesa í heild í jólablaðinu sem sækja má hér á pdf-formi. Jafnframt skal á það minnt, að öll tölublöð Bæjarins besta síðustu átta árin má sækja hér (smellt er á hvern árgang fyrir sig neðst til vinstri á síðunni - Vefblöð).

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30