Tenglar

27. nóvember 2014 | vefstjori@reykholar.is

Jólin eru yfirskrift fullveldishátíðarinnar

1 af 2

Fullveldishátíð Reykhólaskóla verður haldin annað kvöld, föstudag 28. nóvember, í íþróttahúsi Reykhólaskóla. Að þessu sinni er yfirskrift hátíðarinnar Jólin. Húsið verður opnað kl. 19 og æskilegt er að nemendur komi þá. Sýning hefst kl. 19.30 en skemmtuninni lýkur kl. 22.30. Foreldrafélag Reykhólaskóla sér um kaffiveitingar. Allir eru velkomnir eins og endranær.

 

Miðaverð:

  • Fullorðnir 1500 krónur
  • Börn 500 krónur

 

Nemendur og starfsfólk Reykhólaskóla hlakka til að sjá sem flesta á hátíðinni!

 

Eins og áður sagði eru Jólin yfirskrift eða þema hátíðarinnar. Síðustu ár hefur verið eitthvert sérstakt þema á hverri hátíð. Í fyrra var það Fólkið í húsinu og fyrir tveimur árum Íslenskar þjóðsögur.

 

 

Hér fer á eftir sambræðingur úr tveimur gömlum samantektum umsjónarmanns þessa vefjar. Þær varða annars vegar upphaf fullveldis Íslendinga og íslenska þjóðfánans og hins vegar lítils háttar en nokkuð skemmtileg tengsl dagsins 1. desember við Reykhólahrepp.

 

 

Sjálfur fullveldisdagurinn, sem minnst er með hátíðinni, er 1. desember. Þann dag árið 1918 eða fyrir 96 árum varð Ísland frjálst og fullvalda ríki. Enn um sinn eða þangað til íslenska lýðveldið var stofnað árið 1944 voru Íslendingar samt í konungssambandi við Danmörku, auk þess sem Danir önnuðust utanríkismál og fleira fyrir Íslendinga.

 

Á hádegi sunnudaginn 1. desember 1918, þegar sambandslögin um fullveldi Íslands gengu í gildi, var íslenski fáninn þríliti, sem enn er tákn lands og þjóðar, dreginn að húni á fánastöng Stjórnarráðsins við Lækjargötu í Reykjavík í fyrsta sinn sem fullgildur þjóðfáni. Þá hafði hann samt í nokkur ár verið formlega viðurkenndur af konungi. Sigurður Eggerz fjármálaráðherra, er gegndi þá störfum forsætisráðherra í fjarveru Jóns Magnússonar, flutti ræðu af þrepum Stjórnarráðsins og sagði meðal annars:

 

Og í gær hefur konungurinn gefið út úrskurð um þjóðfána Íslands, sem blaktir frá því í dag yfir hinu íslenska ríki... Fáninn er tákn fullveldis vors. Fáninn er ímynd þeirra hugsjóna, sem þjóð vor á fegurstar, hvert stórverk, sem unnið er af oss, eykur veg fánans, hvort sem það er unnið á höfunum, í baráttunni við brim og úfnar öldur eða á svæði framkvæmdanna eða í vísindum og fögrum listum. Því göfugri sem þjóð vor er, þess göfugri verður fáni vor. Vegur hans og frami er frægð þjóðar vorrar...

 

Litirnir í íslenska fánanum tákna bláma fjallanna, ísinn og eldinn. Sá misskilningur hefur verið útbreiddur, að blái liturinn tákni annað hvort hafið sem umkringir landið eða stöðuvötnin á landinu sjálfu. Hið rétta er, að blái liturinn táknar fjallablámann, rauði liturinn táknar eldinn í iðrum landsins (sem um þessar mundir brýtur sér leið upp úr Holuhrauni) en sá hvíti táknar jökulísinn hið efra.

 

Um gerð fánans höfðu staðið deilur og vildu margir að Hvítbláinn, hvítur kross á bláum grunni, yrði þjóðfáni Íslendinga. Núna er Hvítbláinn fáni Ungmennafélags Íslands (UMFÍ), landssambands ungmennafélaga.

 

Íslenski þjóðfáninn, sem oftast ber fyrir augu, er ferhyrndur. Ríkisfáninn svonefndi er hins vegar klofinn að framan (tjúgufáni), og það var hann sem dreginn var að húni á Stjórnarráðinu 1. desember 1918.

 

Gerðir íslenska fánans

Saga íslenska fánans

 

 

Mynd nr. 2 - kannski ekki sérlega jólaleg! - er koparrista eftir danskan listamann, sem sýnir með táknrænum hætti þegar Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og skáld úr Svefneyjum drukknaði í Breiðafirði árið 1768. Um þann atburð orti þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson frá Skógum í Þorskafirði frægt kvæði.

 

Varla þarf að minna á, að Skógar í Þorskafirði voru og eru í Reykhólahreppi hinum gamla og hinum nýja, en Svefneyjar (eins og mestur hluti Breiðafjarðareyja) voru í Flateyjarhreppi (Eyjahreppi), sem núna tilheyrir Reykhólahreppi hinum nýja (frá 1987).

 

Eggert Ólafsson var fæddur árið 1726 - hinn 1. desember. Það er að vísu tilviljun að fullveldisdagurinn skuli jafnframt vera fæðingardagur hans.

 

Allt annar Eggert, sem var mjög þekktur á sinni tíð, var líka fæddur 1. desember. Það var Eggert Stefánsson óperusöngvari á Ítalíu (1890-1962), bróðir Sigvalda Kaldalóns (Sigvalda Stefánssonar) tónskálds og læknis.

 

Sigvaldi Kaldalóns var um tíma héraðslæknir í Flatey á Breiðafirði. Þar samdi hann lagið við eitt þekktasta kvæði Eggerts Ólafssonar, Ísland ögrum skorið, og þar í eynni söng Eggert bróðir hans það í fyrsta sinn opinberlega.

 

Stundum er sagt að Ísland ögrum skorið ætti að vera þjóðsöngur Íslendinga, öllu frekar en Lofsöngur séra Matthíasar Jochumssonar frá Skógum og lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar, sem ýmsum reynist frekar torsungið.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31