Jón Atli Játvarðarson á Reykhólum sextugur
Jón Atli Játvarðarson er sextugur núna 26. janúar. Foreldrar hans voru hjónin Rósa Hjörleifsdóttir og Játvarður Jökull Júlíusson, hinn stórmerki fræðimaður og rithöfundur og bóndi á Miðjanesi, en þar er Jón Atli fæddur og uppalinn. Mestan hluta ævinnar hefur hann átt heima á ættar- og æskuslóðum við Breiðafjörðinn. Hann flutti að vísu til Reykjavíkur upp úr tvítugu og bjó þar í nokkur ár og fluttist svo til Akureyrar og var þar fáein ár eða til þrítugs árið 1979. Þá kom hann aftur heim í Reykhólasveitina, þar sem hann hefur átt heima síðan. Hann er búsettur ásamt fjölskyldu sinni við Hellisbraut á Reykhólum.
Börn Jóns Atla eru fimm, tvær dætur og þrír synir. Með fyrri konu sinni, Sigurlaugu Jónsdóttur, sem nú er látin, eignaðist hann tvö börn, sem nú eru á fertugsaldri, en með seinni konu sinni, Dísu Sverrisdóttur, á hann þrjú börn á aldrinum frá tólf ára til rúmlega tvítugs.
Þess skal getið, að á afmælinu er Jón Atli að heiman ásamt fjölskyldu sinni.