Tenglar

23. ágúst 2011 |

Jón á Kirkjubóli hlaut fyrstur Landstólpann

Jón Jónsson (í miðjunni) ásamt Aðalsteini Þorsteinssyni forstjóra og Önnu Kristínu Gunnarsdóttur stjórnarformanni Byggðastofnunar. Mynd: byggdastofnun.is.
Jón Jónsson (í miðjunni) ásamt Aðalsteini Þorsteinssyni forstjóra og Önnu Kristínu Gunnarsdóttur stjórnarformanni Byggðastofnunar. Mynd: byggdastofnun.is.

Jón Jónsson á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð á Ströndum, ferðaþjónn, fræðimaður, menningarfulltrúi, sveitarstjórnarmaður og sitthvað fleira, var í gær sæmdur hinni nýstofnuðu samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar, Landstólpanum, á ársfundi stofnunarinnar á Sauðárkróki. Þetta er í fyrsta sinn sem viðurkenningin er veitt en áformað er að veita hana árlega. Í vor leitaði Byggðastofnun eftir tilnefningum um einstakling, fyrirtæki, stofnun eða sveitarfélag sem til greina þætti koma og síðan fór dómnefnd yfir tilnefningarnar.

 

Í rökstuðningi með útnefningunni kom fram að um nokkurs konar bjartsýnisverðlaun sé að ræða. Jón hafi með störfum sínum vakið jákvæða athygli á sinni heimabyggð og verið ötull talsmaður ferðaþjónustu og menningar á Vestfjörðum. Þá sé hann virkur í félagsstarfi og menningarlífi sem og frumkvöðull í uppbyggingu ferðaþjónustu, menningarstofnana og fræðastarfs á svæðinu.

 

Í reglum um Landstólpann kemur fram, að viðurkenningin skuli veitt einhverjum sem hefur vakið jákvæða athygli á landsbyggðinni með verkefni, starfsemi, umfjöllun á opinberum vettvangi eða með öðru móti. Viðkomandi gæti bæði hafa vakið athygli á byggðamálum, landsbyggðinni í heild eða einhverju tilteknu byggðarlagi og þannig aukið veg viðkomandi samfélags.

 

Jón Jónsson er þjóðfræðingur að mennt. Ásamt fjölskyldu sinni rekur hann ferðaþjónustu á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð. Frá því að staða menningarfulltrúa, þ.e. framkvæmdastjóra Menningarráðs Vestfjarða, var sett á laggirnar fyrir fjórum árum hefur Jón gegnt henni. Hann er í sveitarstjórn Strandabyggðar og stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga. Árið 2004 stofnaði hann héraðsvefinn strandir.is og hefur verið ritstjóri hans alla tíð.

 

Nafngiftin Landstólpi er fengin úr alkunnu erindi í kvæðinu Alþing hið nýja, sem Jónas Hallgrímsson orti árið 1840:

 

          Traustir skulu hornsteinar

          hárra sala.

          Í kili skal kjörviður.

          Bóndi er bústólpi,

          bú er landstólpi.

          Því skal hann virður vel.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30