Tenglar

14. september 2011 |

Jón frá Hrafnseyri og Bjarni á Fönix á Reykhólum

Jónshús við Austurvegg (Østervoldgade)  í Kaupmannahöfn. Ævagömul ljósmynd í eigu Þjóðminjasafns Íslands.
Jónshús við Austurvegg (Østervoldgade) í Kaupmannahöfn. Ævagömul ljósmynd í eigu Þjóðminjasafns Íslands.

Tveir einleikir, annar um Jón forseta frá Hrafnseyri við Arnarfjörð, hinn um Bjarna skipherra á skútunni Fönix á Þingeyri, verða fluttir í húsakynnum Báta- og hlunnindasýningarinnar á Reykhólum í kvöld, miðvikudagskvöld. Það er Kómedíuleikhúsið rammvestfirska sem kemur í heimsókn og leikendur eru Elfar Logi Hannesson og Ársæll Níelsson. Leikirnir eru um þrjú korter hvor en á milli er kortershlé þar sem Kvenfélagið Katla verður með kaffi- og kökusölu. Húsið verður opnað kl. 19 en sýning hefst kl. 20. Miðaverð er aðeins kr. 1.900.

 

Kómedíuleikhúsið er á ferð um Vesturland og Vestfirði og sýnir leikina tvo á sextán stöðum á sextán dögum. Eftir mánaðamótin liggur leiðin til Kaupmannahafnar þar sem Íslendingafélagið hefur boðið leikhúsinu að sýna leikina í tilefni þess að 200 ár eru liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar (f. 17. júní 1811). Getur hafa verið leiddar að því að Jón og Bjarni hafi verið hálfbræður þó að ekki hafi það verið opinbert.

 

Jón Sigurðsson var búsettur í Kaupmannahöfn alla sína fullorðinstíð og til dauðadags árið 1879. Hins vegar kom hann jafnan heim til þingsetu. Á þeim tíma starfaði Alþingi á sumrin og reyndar ekki nema annað hvert ár.

 

Hér má enn á ný minna á ástæðu þess að Jón var og er nefndur Jón forseti: Það er vegna þess að hann var forseti hinnar öflugu Kaupmannahafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags, sem stofnað var árið 1816 og lifir enn góðu lífi. Reyndar var hann líka forseti Alþingis á tíu þingum af þeim þrettán sem hann sat (fyrir utan Þjóðfundinn árið 1851).

 

Sjá hér nánar um verkin, höfunda og leikendur og fleira þessu tengt:

03.09.2011  Strákur að vestan og Bjarni á Fönix koma á Reykhóla

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31