Jóna Valgerður: Leiðréttið kjaraskerðingu síðustu ára
Kjaramálahópur á landsfundi Landssambands eldri borgara (LEB) samþykkir að hækka þurfi skattleysismörk verulega, enda sé það besta kjarabótin fyrir eldri borgara. Einnig samþykkti hópurinn að atvinnutekjur 67 ára og eldri skuli ekki skerða greiðslur frá Tryggingastofnun. Kjaramálanefnd LEB og stjórn Landssambandsins hafa margítrekað fjallað um niðurskurð á kjörum aldraðra frá miðju ári 2009 þegar bætur voru skertar.
Þannig hefjast ályktanir sem Jóna Valgerður Kristjánsdóttir í Mýrartungu II í Reykhólasveit, formaður Landssambands eldri borgara og fyrrum alþingismaður, sendi vefnum til birtingar. Systir hennar, Þrúður Kristjánsdóttir fyrrv. skólastjóri í Búðardal, er formaður Félags eldri borgara í Dalabyggð og Reykhólahreppi.
Áfram segir í því sem Jóna Valgerður sendi:
- Sá mikli niðurskurður hefur haft áhrif á kjör þúsunda eldri borgara á undanförnum árum. Á sama tíma hefur verðlag hækkað og verðbólga verið óvenju mikil. Alvarlegar afleiðingar hrunsins bitna mjög á eldri borgurum. Um það hefur verið fjallað af opinberum aðilum en enn sitja eldri borgarar eftir að fá það bætt.
- Því er skorað á nýkjörna þingmenn að virða réttarstöðu aldraðra, en um 36.000 manns eru á aldrinum yfir 67 ára og hafa enga lögvarða samningsstöðu um kjör sín og réttindi. Hvatt er til samráðs ríkis og sveitarfélaga við eldri borgara um kjör aldraðra.
- Jafnframt skorar fundurinn á verðandi ríkisstjórn að taka til við að innleiða nýtt frumvarp um almannatryggingar, sem mikil sátt ríkti um eftir kynningar undirbúningshópsins. Mikilvægt er að taka tillit til að í frumvarpinu er gert ráð fyrir gildistöku um síðustu áramót, þannig að fjögurra ára innleiðing getur aðeins tekið þrjú ár. Það er að segja, að hækkanir sem áttu fram að ganga á þessu ári með samþykkt nýrra laga um almannatryggingar ber að bæta og leiðrétta gagnvart öldruðum.
- LEB krefst þess að kjaraskerðingin frá 1. júlí 2009 verði strax afturkölluð. Það er réttlætismál. Kjaraskerðingin nemur í júlí á þessu ári rúmlega 17 milljörðum.
- Vanefndir við að leiðrétta kjör eldri borgara í samræmi við launaþróun brýtur í bága við lög. Í lögum um almannatryggingar eru ákvæði þess efnis, að við hækkun lífeyris skuli tekið mið af hækkun launa og verðlags. Skuli lífeyrir aldrei hækka minna en vísitala neysluverðs, en því hefur ekki verið framfylgt undanfarin ár.
- Fundurinn lýsir einnig yfir mikilli óánægju með hækkanir um síðustu áramót á þjónustugjöldum til lækna og sjúkraþjálfara og nú lyfjakostnaðar og fjölda annarra hækkana sem fólk þarf að mæta án nokkurra leiðréttinga á greiðslum til að mæta þessum kostnaði.
- Landsfundur LEB krefst þess að virðisaukaskattur af lyfjum verði lækkaður úr hæsta þrepi, sem er 25,5 %, í lægsta þrep, sem er 7%. Þessi breyting yrði stórlækkun á lyfjum fyrir eldri borgara landsins, sem eru sennilega fjölmennasti kaupandi lyfja hér á landi. Það væri mikil kjarabót.
- Aðalfundur LEB óskar eftir að ný stefna verði tekin upp við álagningu fasteignagjalda af húsnæði er menn eiga og búa í. Óskað verði lagaheimildar fyrir sveitarfélögin til þess að þau hafi heimild til að afnema fasteignagjöld af húsnæði eldri borgara.
Lífeyrismál - ályktun um lífeyrissjóðina
Standa þarf vörð um íslenska lífeyrissjóðakerfið svo að það geti þjónað því hlutverki sínu að taka sem mestan þátt í eftirlaunagreiðslum til lífeyrisþega. Landsfundur Landssambands eldri borgara haldinn 7.-8. maí 2013 leggur áherslu á eftirfarandi:
- Að lífeyrissjóðirnir geti áfram fjárfest í verðtryggðum skuldabréfum, sem gefin eru út af ríkissjóði, sveitarfélögum, fjármálastofnunum, fyrirtækjum með góða eiginfjárstöðu eða sem verðtryggð sjóðsfélagalán með fasteignaveði. Minnt skal á að lífeyrisgreiðslur sjóðanna eru almennt verðtryggðar samkvæmt lögum og afnám eða bann verðtryggingar getur haft veruleg neikvæð áhrif á getu þeirra til að greiða verðtryggðan lífeyri í framtíðinni.
- Að lífeyrissjóðagreiðslur hafi sem minnst áhrif á bætur almannatrygginga og að bætur sjóðanna skerði alls ekki grunnlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.
- Að leggja þarf strax fjármagn í þá lífeyrissjóði sem njóta ábyrgðar ríkis og sveitarfélaga til að koma í veg fyrir að þeir breytist alfarið í gegnumstreymissjóði, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
- Að við áætlun um rýmkun gjaldeyrishafta verði sjóðunum strax gefið tækifæri til að ávaxta eignir sínar að hluta erlendis til að eðlileg áhættudreifing náist á eignum sjóðanna.
- Að við endurskoðun á lögum um lífeyrissjóði verði þess gætt, að eldri borgarar eigi aðkomu að stjórnum lífeyrissjóða, þaðan sem þeir fá lífeyri.
- Að stefna beri að jöfnun lífeyrisréttinda allra landsmanna, en þó verði ekki skert áunnin réttindi.
Í ljósi þessa er það álit Kjaranefndar Landssambands eldri borgara, að stofna beri embætti umboðsmanns aldraðra. Hlutverk þess embættis ætti m.a. að vera að gæta hagsmuna aldraðra í hvívetna. Þar á meðal skyldi umboðsmaður aldraðra gæta þess að lögum um málefni aldraðra sé framfylgt, þar á meðal því ákvæði laganna að aldraðir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur.
Í lögum um almannatryggingar eru ákvæði þess efnis, að við hækkun lífeyris skuli tekið mið af hækkun launa og verðlags. Skuli lífeyrir aldrei hækka minna en vísitala neysluverðs, en því hefur ekki verið framfylgt undanfarin ár.
Til umboðsmanns aldraðra væri hægt að skjóta slíkum vanefndum á framkvæmd laga um kjör eldri borgara.
Jón Trausti Markússon, rijudagur 14 ma kl: 10:27
Vinsamleg ábending: Systir Jónu Valgerðar fyrrum skólastjóri í Búðardal heitir Þrúður en ekki Þuríður. Bestu kveðjur og þakkir fyrir mj´ög lifandi vef.