Tenglar

3. janúar 2011 |

Jóna Valgerður sæmd riddarakrossi fálkaorðunnar

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.
Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.
1 af 2
Það er ekki á hverju ári sem fólk búsett í Reykhólahreppi hlýtur hina íslensku fálkaorðu úr hendi forseta Íslands á Bessastöðum. Núna á nýársdag varð Jóna Valgerður Kristjánsdóttir í Mýrartungu II þessa heiðurs aðnjótandi. Þá fékk hún riddarakross fyrir framlag sitt til félagsmála á landsbyggðinni. Á sínum tíma var Jóna Valgerður alþingismaður fyrir Vestfjarðakjördæmi en síðar sveitarstjóri og oddviti í Reykhólahreppi, auk þess að gegna fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum.

Árið 1985 hlaut Játvarður Jökull Júlíusson, bóndi, fræðimaður og rithöfundur á Miðjanesi, riddarakross fyrir fræði- og félagsmálastörf. Hann gegndi fjölbreyttum trúnaðarstörfum fyrir hérað sitt. Fræðistörfin og bækurnar hans munu þó einkum halda nafni hans á lofti um langa framtíð.

 

Ef einhverjir lesendur minnast þess að fleiri íbúar héraðsins hafi hlotið fálkaorðuna væri gaman að frétta af því.

  

Athugasemdir

Málfríður Vilbergsdóttir, mnudagur 03 janar kl: 12:10

Kæra Jóna Valgerður!

Innilegar hamingjuóskir með þennan heiður.

Bestu kveðjur Málfríður og Þráinn Hríshóli

Hlynur Þór Magnússon, mnudagur 03 janar kl: 12:53

Því mætti hnýta hér við, að Játvarður Jökull heitinn var afi Gústafs Jökuls Ólafssonar, núverandi oddvita Reykhólahrepps. Játvarður átti sæti í hreppsnefnd Reykhólahrepps í sextán ár og seinni helming þess tíma var hann oddviti.

Hlynur Þór Magnússon, mnudagur 03 janar kl: 14:02

Góðvinur þessarar vefsíðu sendi ábendingu um að Ólína Margrét Magnúsdóttir á Kinnarstöðum í Reykhólasveit, betur þekkt einfaldlega sem Ólína á Kinnarstöðum, hlaut árið 1979 riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir fræðslustörf.

Hlynur Þór Magnússon, mnudagur 03 janar kl: 14:51

Enn bætist við upplýsingar. Árið 1978 hlaut Karl Guðmundsson frá Valshamri í Geiradal, sem þar var bóndi í marga áratugi, riddarakross fálkaorðunnar fyrir félagsmálastörf. Þá var hann orðinn aldraður og reyndar fluttur suður.

Hlynur Þór Magnússon, mnudagur 03 janar kl: 16:34

Þetta er ekki búið! Jónas Ragnarsson í Reykjavík, vinur vefsíðunnar og sveitarfélagsins, er búinn að finna eitt nafn enn. Jón S. Ólafsson í Króksfjarðarnesi, bóndi og þá fyrrverandi hreppstjóri Geiradalshrepps, hlaut riddarakross fálkaorðunnar árið 1957.

Þrymur Sveinsson, rijudagur 04 janar kl: 18:37

Snæbjörn Kristjánsson sægarpur, bóndi og hreppstjóri í Hergilsey, (1858 - 1939) fékk árið 1911 eða 1912 sendan riddarakross, dannebrogsorðunnar fyrir frækilega framgöngu sína þegar hann og Guðmundur Björnsson sýslumaður Barðstrendinga, höfðu afskifti af breskum togara sem var á veiðum innan þáverandi landhelgismarka á Breiðafirði við Stagley. Ekki tókst betur en svo að Snæbirni og Guðmundi var rænt af tógaraáhöfninni og var siglt til Englands. Þegar heim var komið var þeim fagnað sem hetjum. Þegar Snæbjörn komst á snoðir um að vinur sinn sýslumaðurinn væri ekki sama heiðurs aðnjótandi sendi hann um það athugasemdir til frænda síns Björns Jónssonar ráðherra. Fátt var um svör og brást Snæbjörn hinn versti við og sagðist svo frá í endurminningum sínum. " Ég spurði sjálfan mig: ""Hvað gerði ég í ferðinni? Ekkert nema að vera honum til skemmtunar, - og taka á móti heiðursmerki fyrir það skal aldrei um mig spyrjast, úr því að honum er enginn sómi sýndur, sem meira vann þó til þess." Ég sendi þegar krossinn aftur og neitaði honum af þeim ástæðum, sem ég hef greint hér. - Krossinn komst þó ekki lengra en til Reykjavíkur, og er sagt að hann sé geymdur í einhverju leynihólfi í stjórnarráðinu"" Drengilega brást Snæbjörn við óréttlætinu og lét glingrið ekki glepja réttsýni sína. Þess má geta að Snæbjörn Kristjánsson er forfaðir Eiríks Snæbjörnssonar bónda á Stað, Snæbjarnar Jónassonar fyrrv. vegamálastjóra, Dagnýjar Kristjánsdóttur prófessors í Íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands og Snæbjarnar Arngrímssonar bókaútgefenda svo fáein af afkomendum hans séu nefnd.

Jónas Ragnarsson, rijudagur 04 janar kl: 19:36

Samkvæmt skrá á vef embættis Forseta Íslands hlaut Snæbjörn Kristjánsson hreppstjóri riddarakross fálkaorðunnar 1. desember 1921. Í blaðinu Austurlandi, 23. desember 1921, er Snæbjarnar Kristjánssonar í Hergilsey getið í hópi "riddara" sem konungur sæmdi heiðursmerki fálkaorðunnar. Ekki er getið um tilefnið. Ef til vill er þetta sama orðan sem fjallað er um í ævisögunni.

Þrymur Sveinsson, rijudagur 04 janar kl: 19:49

Fyrri tilskipun hefur þá verið virk þótt sævíkingurinn hafi skilað Dannebrog áratug áður. Það er áhugavert að sjá þetta Jónas.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30