Tenglar

26. apríl 2015 |

Jónas sýslumaður afturkallaði tilskipun forvera síns

Jónas sýslumaður, Illugi, Martin Garitano og Esther Ösp.
Jónas sýslumaður, Illugi, Martin Garitano og Esther Ösp.
1 af 2

Meðal kunnustu stórbokka og auðmanna Íslandssögunnar er Ari Magnússon sýslumaður (1571-1652), sem á sinni löngu sýslumannsævi var nánast einvaldur á Vestfjörðum. Hann varð tvítugur að aldri sýslumaður í Barðastrandarsýslu og síðan Ísafjarðarsýslu og gegndi sýslumannsembætti til dauðadags eða í sextíu ár. Faðir hans var Magnús Jónsson prúði, sýslumaður í Ögri og síðar í Bæ á Rauðasandi, en eitt af hugðarefnum hans var almennur vopnaburður. Ari var og er jafnan kenndur við Ögur þar sem hann bjó lengst og nefndur Ari í Ögri, en þegar yfir lauk var hann jarðsettur á Reykhólum. Meðal barna hans var Magnús sýslumaður á Reykhólum.

 

Þekktastur er Ari sýslumaður af Spánverjavígunum árið 1615 eða fyrir réttum 400 árum, einu fjöldamorðunum sem framin hafa verið á Íslandi, eins og sagt hefur verið. Alls voru 32 drepnir, sumir á Sandeyri á Snæfjallaströnd, aðrir á Fjallaskaga við Dýrafjörð. Menn þessir komu til hvalveiða við Ísland en brutu skip sín í óveðri á Ströndum.

 

Núna síðasta vetrardag var afhjúpaður við Galdrasafnið á Hólmavík minnisvarði um drápin á þessum skipbrotsmönnum, sem voru frá Baskalandi á Spáni. Meðal viðstaddra var Jónas Guðmundsson sýslumaður á Vestfjörðum, sem afturkallaði við þetta tækifæri tilskipun Ara forvera síns í embætti þess efnis, að allir Baskar skyldu réttdræpir á Vestfjörðum.

 

Ávörp fluttu Martin Garitano, héraðsstjóri í Gipuzkoa í Baskalandi, Illugi Gunnarsson menningarmálaráðherra, Jónas sýslumaður og Esther Ösp Valdimarsdóttir tómstundafulltrúi fyrir hönd Strandabyggðar og Hólmavíkur. Leikskólabörn á Hólmavík sungu nokkur lög og Tapio Koivukari rithöfundur og fulltrúar frá Baskalandi fluttu sjóferðabæn. Einnig kvað Steindór Andersen rímur úr Fjölmóði eftir Jón lærða Guðmundsson en Ólafur J. Engilbertsson lék undir á steinhörpu.

Að atburði þessum stóðu Baskavinafélagið á Íslandi og menningarstofnanir í Baskalandi og í Bandaríkjunum, auk mennta- og menningarmálaráðuneytisins og sýslumannsembættisins á Vestfjörðum. Myndirnar sem hér fylgja eru af Facebooksíðu Ólafs J. Engilbertssonar frá Tirðilmýri á Snæfjallaströnd, formanns Baskavinafélagsins á Íslandi.

 

Athugasemdir

Hlynur Þór Magnússon, mnudagur 27 aprl kl: 17:13

Svolítið einkennilegt til þess að hugsa, að þessi ágæti (eða a.m.k. vel þekkti) forfaðir minn (Ari sýslumaður) skuli liggja í jörð rétt um hundrað metra frá heimili mínu.

Bjarni Kristjánsson, rijudagur 28 aprl kl: 12:13

Sonarsonur Ara sýslumanns var langafi langafa langömmu minnar.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31