Tenglar

19. febrúar 2017 | Umsjón

Kæru aðstandendur (h)eldri borgara!

Guðjón Dalkvist Gunnarsson.
Guðjón Dalkvist Gunnarsson.

Því lengra sem ég staulast upp (eða niður) áttunda áratuginn verða tvær „bækur“ mér sífellt kærari og sífellt nauðsynlegri. Þetta eru Íslendingabók hin nýja (á netinu) og Fésbókin (Facebook). Á Fésinu kynnist ég nær daglega nýjum vinum og finn þar gamla vini á ný, og í stað þess að spyrja í sífellu Hverra manna ert þú, góða/góurinn fletti ég einfaldlega upp í Íslendingabókinni.

 

Þetta hjálpar líka þeim sem vilja fylgjast með hvort ég tóri.

 

Þá kem ég að efninu: Fjöldi (h)eldri borgara er haldinn tölvufælni. Hana er auðvelt að lækna - með svolítilli þolinmæði og svolítilli lagni. Þetta fólk ól ykkur upp - með þolinmæði og lagni - og nú er ykkar að launa það með svolítilli tölvukennslu. Í guðanna bænum hjálpið þeim inn í mannlífið sem eru hjálparþurfi.

 

Sjálf fælnin við tölvurnar er helsta hindrunin hjá (h)eldri borgurum. Margir í þeim hópi halda að þetta sé eitthvað svo voðalega flókið. Byrjið á að segja þeim að svo er alls ekki! Það er ekki flóknara að brúka netið en að sjóða fisk. Ágætur kunningi minn á svipuðum aldri er eldklár í tölvum en óttalegur klaufi að sjóða fisk svo vel fari, þrátt fyrir margra áratuga viðleitni í þeim efnum á milli kvenna.

 

Svo er annað erindi: (H)eldri borgarar fá afslátt af margs konar vörum og þjónustu. Sums staðar miðast það við aldur en annars staðar þarf viðkomandi að vera í félagi eldri borgara og framvísa félagskorti.

 

Endilega bendið ættingjum og vinum sem orðnir eru sextugir eða eldri á að ganga í eitthvert félag eldri borgara, það munar um afsláttinn. Auk þess er margvíslegt félagsstarf í boði. Einu gildir hvort það er Félag eldri borgara í Dalabyggð og Reykhólahreppi (Jóna Valgerður í Mýrartungu II veit allt um það) eða Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, svo dæmi séu tekin. Bæði þessi félög eru opin öllum sem náð hafa 60 ára aldri. Og ekki nóg með það, heldur líka mökum þeirra þótt þeir séu yngri.

 

- Guðjón D. Gunnarsson, kannski ekki síður þekktur sem Dalli.

 

Athugasemdir

Ágæti kunninginn sem nefndur er, sunnudagur 19 febrar kl: 20:28

Í spekiritinu forna Bókinni um veginn segir eitthvað á þessa leið: Að stjórna stóru ríki er eins og að sjóða litla fiska ...

Umsjón, sunnudagur 19 febrar kl: 22:10

Íslendingabók hin nýja er einstaklega gagnleg og skemmtileg. Þar geta allir skráð sig og fengið upplýsingar, en gallinn er kannski helst þessi: Þar kemur aðeins fram annað hvort móðir eða faðir þess sem flett er upp, eftir því hvor skyldleikinn er nánari, ásamt ættrakningu þeirrar manneskju eins langt aftur og heimildir eru um. Ráðið við þessu er einfaldlega þetta: Fá líka aðganginn hjá vinum og kunningjum (hér eru engin leyndarmál á ferð) og þá má fá langtum meiri upplýsingar.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31