Tenglar

29. nóvember 2013 | vefstjori@reykholar.is

Kallar hann mig, kallar hann þig

Jóhannes Arason aldraður við baðstofuna sína sem hann byggði í Seljalandi.
Jóhannes Arason aldraður við baðstofuna sína sem hann byggði í Seljalandi.
1 af 2

Að minnsta kosti tvær nýjar bækur um og eftir héraðsmenn verða kynntar á jólamarkaðinum í Króksfjarðarnesi um helgina. Önnur þeirra er um Jóhannes Arason frá Múla í Kollafirði (1913-2009), sem fæddur var í Seljalandi í Gufudalssveit. Hún er eftir Sigrúnu Elíasdóttur sagnfræðing, sonardóttur Jóhannesar, og nefnist Kallar hann mig, kallar hann þig. Meðal viðfangsefna Jóhannesar um dagana var grjót- og torfhleðsla víða um land.

 

Hin bókin nefnist Gróa og hefur að geyma margvíslegar minningar úr Skáleyjum og frá eyjalífinu á Breiðafirði ásamt ýmsu bundnu máli. Höfundur hennar er Jóhannes Geir Gíslason í Skáleyjum (f. 1938), sem notar höfundarnafnið Jói í Skáleyjum eins og hann er jafnan kallaður.

 

Bókin Kallar hann mig, kallar hann þig er þegar komin út en bókin Gróa er að fara í prentun þessa dagana. Sigrún Elíasdóttir er væntanleg vestur um helgina af þessu tilefni. Auk þess að vera á jólamarkaðnum les hún upp úr bókinni sinni í Barmahlíð á Reykhólum kl. 15.30 á morgun, laugardag. Jói í Skáleyjum ætlar að lesa upp úr Gróu sinni á markaðinum í Nesi á morgun.

 

Hér fara á eftir nánari upplýsingar um bók Sigrúnar um afa hennar ásamt nokkrum brotum úr henni. Nánar verður fjallað hér um bók Jóa í Skáleyjum þegar hún er komin úr vélunum og komin í Hólakaup og aðrar verslanir.

 

_________________________________

 

Í bók sinni Kallar hann mig, kallar hann þig fjallar sagnfræðingurinn Sigrún Elíasdóttir um líf og störf afa síns, alþýðumannsins/torfhleðslumannsins Jóhannesar Arasonar frá Seljalandi í Gufudalssveit. Söguhetja bókarinnar fæddist í torfbæ árið 1913 og lést á reykvískri sjúkrastofnun 96 árum síðar eða árið 2009. Æviskeið Jóhannesar spannar því einhverja mestu umbrotatíma Íslandssögunnar.

 

Sigrún byggir bók sína jöfnum höndum á eigin minningum og sviðsetningum úr æsku afa síns. Úr verður heillandi frásögn sem brúar bilið á milli gamla og nýja tímans. Kallar hann mig, kallar hann þig er dýrmætur aldarfarsspegill nú á tímum aukinnar sjálfsskoðunar okkar Íslendinga, segir á bókarkápu. Undirtitill bókarinnar er Sigrún Elíasdóttir í leit að afa. Flestir munu kannast við lokalínurnar í Áföngum Jóns Helgasonar, Kallar hann mig og kallar hann þig, kuldaleg rödd og djúp.

 

Höfundur bókarinnar, Borgfirðingurinn Sigrún Elíasdóttir, fæddist árið 1978. Hún lauk MA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Kallar hann mig, kallar hann þig er hennar fyrsta bók.

 

Nokkur brot á stangli:

  • Það var líka líkt og Móri kynni á klukku, því hann fór að ýlfra og snúast þegar leið að mjaltatíma á kvöldin. Í blautu veðri þegar ekki sást til sólar og erfiðara var að meta hvað tímanum liði var freistandi fyrir litla útilegumenn að koma of snemma heim.
  • ... en Jóa litla þótti langt að bíða eftir bróður, hélt að Mundi hefði ekki fundið kindurnar og pabbi þeirra myndi skamma þá, hann hefði týnst í þokunni eða eitthvað komið fyrir hann. Jóhannes tók því að biðja til guðs um að senda Munda ómeiddan til sín strax aftur. En ekki þótti honum það bera mikinn árangur því enginn kom. Enda hefur guð ekkert tímaskyn, fyrir honum eru þúsund ár sem einn dagur og því ekki við miklu að búast.
  • Foreldrar mínir reyndu að segja mér aftur og aftur þetta með berklana sem hafi einu sinni verið mjög alvarlegur sjúkdómur. En mér fannst þetta tóm vitleysa, sjúkdómur síðan í fornöld kæmi mér lítt við. Ég var vön þessum veikindum, óttaðist þau ekki og þekkti engan sem hefði dáið úr hósta. Þegar pabbi var lítill lenti hann í því sama, nema af mun meiri krafti. Hann var föl og veikluleg vera og yrði honum á að reka upp smá boffs úti í sólarblíðu var búið að dúða hann í úlpur og trefla svo rétt sást í augun.
  • Mér leið alltaf eins og glæpamanni sem leiðir gamalmenni inn í banka og neyðir út úr því fé. Konurnar í bankanum brosa því þær kannast við afa, sem alltaf er svo almennilegur við þær og hann fær sér kaffi og tvo mola. Svo réttir hann þeim bankabókina sína og græjurnar þeirra rúlla út einhverjum seðlum handa unglingnum sem viðstaddir telja vera að hlunnfara afa sinn.
  • Þegar afi dó skrifaði ég um hann minningargrein sem hófst á þessum orðum: „Afi minn var ekki eins og öfum er oft lýst í bókum. Hann hafði ekkert sérlega gaman af litlum börnum, held ég, og skipti sér lítið af okkur framan af.“ Þetta er kannski ekki falleg kveðja til afa síns, en þetta var alveg dagsatt.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Febrar 2024 »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29