Tenglar

12. janúar 2017 | Umsjón

Karlar farnir að bætast í hópinn

Myndir: Kolbrún Lára Mýrdal.
Myndir: Kolbrún Lára Mýrdal.
1 af 5

„Þarna er fólk að vinna ýmsa handavinnu – prjóna, sauma, hekla – og spila á spil, en umfram allt er spjallað og haft gaman. Konur í Reykhólahreppi og Saurbæ eru duglegar að mæta en það hafa líka komið konur m.a. frá Hólmavík og Drangsnesi og alla leið úr Reykjavík. Konur hafa verið í miklum meirihluta, en það hafa læðst nokkrir karlmenn þarna með líka. Einn þeirra lærði að prjóna peysu undir leiðsögn Möggu á Gróustöðum, svo dæmi sé tekið.“

 

Þetta segir Erla Björk Jónsdóttir í Garpsdal við Gilsfjörð, formaður Handverksfélagsins Össu, um opin hús eða hittinga félagsins, sem hafa um árabil verið í Króksfjarðarnesi yfir vetrartímann.

 

Þessi hugmynd að Handverksfélagið Assa yrði með opin hús kom upp haustið 2010. Þangað væru allir vinir og velunnarar velkomnir og ekki væri skylda að vera skráður í félagið. Fyrstu árin var hist í Vogalandi og voru hittingarnir þá annað hvert miðvikudagskvöld. Síðan voru þeir færðir um set í gamla kaupfélagshúsið í Nesi. Þeir standa frá kl. 20 til 22 og eru núna á hverju miðvikudagskvöldi yfir vetrartímann.

 

Tilgangur þessara hittinga er að efla tengsl og rjúfa félagslega einangrun, ásamt því að vera dægrastytting yfir veturinn fyrir fólk á öllum aldri.

 

Erla Björk segir að þetta sé vel nýtt og nauðsynlegt bæði félagslega og menningarlega.

 

„Eldri konurnar eru duglegar að koma með og sýna öðrum hluti sem þær hafa gert síðustu áratugina, eins og dúka frá Húsmæðraskólaárunum og fleira. Yngri konurnar eru duglegar að sækja sér fróðleik til þeirra sem eru eldri og reyndari.“

 

Handverksfélagið Assa var stofnað á vormánuðum 1994 af nokkrum vöskum handverkskonum. Framan af voru nær eingöngu konur í félaginu en síðustu ár hafa karlar bæst í hópinn og þeim fer fjölgandi. „Sem er mjög gleðilegt,“ segir Erla Björk.

 

Auk hennar eru í stjórn Össu (fram að aðalfundi í apríl) þau Ingibjörg Kristjánsdóttir í Ásaheimum í Króksfjarðarnesi (áður í Garpsdal) og Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli í Geiradal.

 

Hittingsmyndirnar sem hér fylgja tók Kolbrún Lára Mýrdal á Svarfhóli.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2023 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31