Karlavígi loksins fallið
Bríet Arnardóttir hefur verið ráðin yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Patreksfirði, fyrsta konan sem gegnir slíku starfi hér á landi. Vegaverkstjórastaðan, sem svo var kölluð, var virðingarembætti í héruðum landsins. Þetta karlavígi er nú fallið.
Frá þessu greinir Helgi Bjarnason blaðamaður og ræðir við Bríeti á baksíðu Morgunblaðsins í dag. Þar segir meðal annars:
Sunnanverðir Vestfirðir eru starfssvið yfirverkstjórans á Patreksfirði. Bríet ber meðal annars ábyrgð á snjómokstri og heflun vega, og því er sinnt eftir því sem fjárveitingar leyfa. Hún segir að fyrirrennari sinn í starfi, Eiður B. Thoroddsen rekstrarstjóri, hafi varað hana við að þessum þáttum fylgdi mikið álag og kvabb og að hún sem yfirmaður deildarinnar væri ekki í átta til fimm vinnu.
Eiður verður sjötugur á árinu og lætur af störfum með vorinu. Hann hefur starfað hjá Vegagerðinni frá því hann var unglingur og samfellt í fimmtíu ár.
Varðandi vegabætur telur Bríet að lagning nýs vegar í Gufudalssveit sé brýnasta verkefnið. Verið er að undirbúa verkið, meðal annars nýja leið um Teigsskóg í Þorskafirði. Hún segir mikilvægt að íbúar og atvinnulífið séu í góðu sambandi við vegakerfi landsins og höfuðborgarsvæðið. „Að mati okkar íbúanna ætti þetta að vera forgangsatriði í vegaframkvæmdum á Íslandi.“
Bríet hefur verið lengi starfandi í björgunarsveitinni Blakki á Patreksfirði og var formaður hennar í tæp níu ár. Þar fékk hún góða reynslu. „Þegar björgunarsveitin starfar þarf að taka margar ákvarðanir á stuttum tíma. Þá er sveitin hluti af öflugum samtökum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Þar eru stöðug námskeið og margt hægt að læra. Þetta er góður skóli fyrir starf eins og þetta.“