Tenglar

2. mars 2016 |

Karlavígi loksins fallið

Bríet Arnardóttir hefur verið ráðin yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Patreksfirði, fyrsta konan sem gegnir slíku starfi hér á landi. Vegaverkstjórastaðan, sem svo var kölluð, var virðingarembætti í héruðum landsins. Þetta karlavígi er nú fallið.

 

Frá þessu greinir Helgi Bjarnason blaðamaður og ræðir við Bríeti á baksíðu Morgunblaðsins í dag. Þar segir meðal annars:

 

Sunnanverðir Vestfirðir eru starfssvið yfirverkstjórans á Patreksfirði. Bríet ber meðal annars ábyrgð á snjómokstri og heflun vega, og því er sinnt eftir því sem fjárveitingar leyfa. Hún segir að fyrirrennari sinn í starfi, Eiður B. Thoroddsen rekstrarstjóri, hafi varað hana við að þessum þáttum fylgdi mikið álag og kvabb og að hún sem yfirmaður deildarinnar væri ekki í átta til fimm vinnu.

 

Eiður verður sjötugur á árinu og lætur af störfum með vorinu. Hann hefur starfað hjá Vegagerðinni frá því hann var unglingur og samfellt í fimmtíu ár.

 

Varðandi vegabætur telur Bríet að lagning nýs vegar í Gufudalssveit sé brýnasta verkefnið. Verið er að undirbúa verkið, meðal annars nýja leið um Teigsskóg í Þorskafirði. Hún segir mikilvægt að íbúar og atvinnulífið séu í góðu sambandi við vegakerfi landsins og höfuðborgarsvæðið. „Að mati okkar íbúanna ætti þetta að vera forgangsatriði í vegaframkvæmdum á Íslandi.“

 

Bríet hefur verið lengi starfandi í björgunarsveitinni Blakki á Patreksfirði og var formaður hennar í tæp níu ár. Þar fékk hún góða reynslu. „Þegar björgunarsveitin starfar þarf að taka margar ákvarðanir á stuttum tíma. Þá er sveitin hluti af öflugum samtökum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Þar eru stöðug námskeið og margt hægt að læra. Þetta er góður skóli fyrir starf eins og þetta.“

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30