Tenglar

25. júní 2016 |

Karlmaður kom á kjörstað í brúðarkjól

Kosningu í forsetakjörinu lauk kl. 18.40 í kjördeildinni á Reykhólum. Á kjörskrá voru 198 en atkvæði greiddu 143 eða 72,2%. Það er lítið eitt meiri kjörsókn en í forsetakosningunum 2012 þegar kosningaþátttakan var 71%.

 

„Dagurinn gekk vel í alla staði,“ segir Steinunn Ó. Rasmus, formaður kjörstjórnar í Reykhólahreppi. „Fólk kom ýmist gangandi eða akandi. Samkvæmt venju kom Grundarfjölskyldan og fleiri á fullorðnum dráttarvélum. Einn karlmaður kom klæddur brúðarkjól. Veit ekki hvort hann mun gera það að hefð að mæta þannig klæddur á kjörstað framvegis.“

 

Atkvæði í Norðvesturkjördæmi verða talin í Borgarnesi. Enda þótt kjörfundi hafi lokið þetta snemma á Reykhólum verður atkvæðakassinn þaðan samt ekki kominn í Borgarnes fyrr en þegar vel er liðið á nóttina. Eftir að kjörfundum lýkur kl. 22 á norðanverðum Vestfjörðum fer bíll með kjörkassana þaðan frá Ísafirði og tekur kassa á leiðinni, meðal annars kassann frá Reykhólum.

 

Athugasemdir

Hlynur Þór Magnússon, umsjónarmaður vefjarins, sunnudagur 26 jn kl: 08:34

Þar eð spurst hefur út að kjósandinn í brúðarkjólnum heitir Hlynur og ástæða klæðnaðarins var steggjun, vill umsjónarmaður þessa vefjar koma því á framfæri að þetta var ekki hann. Sumsé enn á lausu; síðustu forvöð að tryggja sér eintak með þessu nafni í héraðinu.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31