Tenglar

24. febrúar 2017 | Umsjón

Kaupum ekki banka fyrir arðinn

Guðbrandur Sverrisson og Lilja Jóhannsdóttir. Mynd: Morgunblaðið.
Guðbrandur Sverrisson og Lilja Jóhannsdóttir. Mynd: Morgunblaðið.
1 af 3

„Þetta gefur nóg fyrir okkur sem ekki fylgjum hörðustu straumum í tísku og því sem tilheyrir. Segja má að þetta sé lífsstíll og kannski ekki verra en hvað annað, stressið jafnvel minna,“ segir Guðbrandur Sverrisson, sauðfjárbóndi á Bassastöðum í Kaldrananeshreppi á Ströndum. Bú hans og Lilju Jóhannsdóttur, eiginkonu hans, var í hópi afurðahæstu sauðfjárbúa landsins á síðasta ári.

 

Þannig hefst viðtal Helga Bjarnasonar blaðamanns við Guðbrand, sem birtist í Morgunblaðinu í dag undir fyrirsögninni hér fyrir ofan. Þar segir einnig meðal annars:

 

Guðbrandur segir að síðasta ár hafi verið mjög gott til sauðfjárræktar. Tíðarfarið með afbrigðum gott alveg frá mars og út árið og raunar fram í þessa viku. Engin vorhret hafi gert, en í hretum komi oft afturkippur í vöxt lambanna sem búið er að setja út á tún og ekki hægt að koma inn aftur. Norðanáttin getur verið ströng á Bassastöðum en hún hrjáði ekki bændur á síðasta ári. Allt er þetta með öðru móti en árið 2015. Þá var hart vor á Ströndum og víðar og afurðirnar drógust saman, eins og gerist við þannig aðstæður.

 

Mest áhersla á frjósemi

 

„Við leggjum mesta áherslu á að koma frjósemi ánna í viðunandi horf. Hún er grunnurinn að afurðum ásamt mjólkurlagni ánna og meðferð fjárins. Grundvallaratriði í því er að taka fé ekki of seint á gjöf og alls ekki láta fé snöltra í beitar- og skjóllitlum girðingum langt fram eftir hausti. Þetta á við um allar ær og sérstaklega veturgamlar. Síðan þarf fóðrun yfir veturinn að vera við hæfi, sér í lagi vorfóðrunin. Í apríl fer að skipta máli hvernig ærnar eru undirbúnar fyrir burð og mjólkurframleiðslu,“ segir Guðbrandur. Hann segir að frjósemi hafi verið góð á síðasta ári, meira en tvö lömb fædd eftir hverja á að meðaltali. Lítið hafi verið um vanhöld og gróður komið snemma til.

 

Erfiðleikar eru í sauðfjárræktinni. Sláturhúsin hafa lent í erfiðleikum með útflutning. Verð til bænda lækkaði á síðasta ári og búist er við frekari lækkun í ár. Guðbrandur telur að vanda sauðfjárframleiðslunnar megi að miklu leyti rekja til sölumálanna. Breyta þurfi hugsunargangi fólks. „Einhvern tímann var sagt: Hollur er heimafenginn baggi. Manni finnst ekki ástæða til að eyða gjaldeyri í vöru sem hér er framleidd og stendur framar, að minnsta kosti að heilbrigði, þótt hægt sé að finna hana ódýrari erlendis.“

 

Margir vinna utan bús

 

Guðbrandur og Lilja eru ekki með margt fé, um 220 ær, og hafa drýgt tekjurnar með því að taka að sér ýmis óskyld verkefni. Þau hafa til dæmis verið með vegavinnuflokk í fæði og að hluta til í húsnæði og Guðbrandur tekur að sér ýmsa vélavinnu.

 

Hann segir að erfitt sé að lifa eingöngu á sauðfjárbúskapnum. Það geri þó sumir leikandi, jafnvel þótt þeir hafi ekki margt fé. Þegar menn þurfi að kaupa að vinnu og þjónustu fari róðurinn fljótt að þyngjast. „Ég held að enginn kaupi banka fyrir arðinn,“ segir Guðbrandur.

 

 

Taflan og línuritið (myndir 2 og 3) fylgja viðtalinu í Morgunblaðinu.

 

Athugasemdir

Jón Jónsson, laugardagur 25 febrar kl: 09:34

Lilja á Bassastöðum er Jóhannsdóttir.

Umsjónarmaður vefjarins, laugardagur 25 febrar kl: 12:24

Bestu þakkir, Jón. Búinn að leiðrétta. - Þetta er svona í Mogganum!

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31