Tenglar

20. október 2011 |

Kennimerki félagsþjónustunnar valið

Kennimerki félagsþjónustunnar.
Kennimerki félagsþjónustunnar.
1 af 2

Nýlega var haldin samkeppni um kennimerki (lógó) Félagsþjónustu Stranda og Reykhólahrepps og voru allmargar tillögur sendar inn. Valið var erfitt þar sem allar tillögurnar voru vandaðar, hugmyndaríkar og skemmtilegar, segir í tilkynningu. Hins vegar þarf alltaf að velja eina og bar Friðlaugur Jónsson sigur úr býtum. Tillaga hans var með skírskotun í galdratákn og byggðasögu svæðisins með nútímalegri nálgun.

 

Upphafsstafir Félagsþjónustu Stranda og Reykhólahrepps (FSR) eru í kennimerkinu auk þess sem 4 hlutar tákna þau fjögur sveitarfélög sem mynda félagsþjónustuna en það eru Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Reykhólahreppur og Strandabyggð. Græni hlutinn táknar notendur félagsþjónustunnar.

 

Friðlaugur er fæddur og uppalinn á Ísafirði en býr í Reykjavík í dag. Hann útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Myndlistaskólanum á Akureyri árið 2008. Hann hefur unnið á hinum ýmsu auglýsingastofum og grafísku vinnustofum auk þess sem hann sá um umbrot og útgáfu sjónvarpsvísisins Almanaks við annan mann um tveggja ára skeið. Í dag starfar hann hjá tölvuleikjafyrirtækinu Fancy Pants Global í Kópavogi sem sérhæfir sig í leikjum og forritum fyrir snjallsíma og tölvur. Skemmst er frá því að segja að hann vann einnig merkjasamkeppni sem haldin var í vor á vegum Snjóflóðaseturs Veðurstofu Íslands fyrir SNAPS-verkefnið. Heimasíða höfundar er www.frilli7.com.

 

Auk heiðursins af höfundarrétti kennimerkisins voru 50.000 krónur í verðlaun. Félagsþjónusta Stranda og Reykhólahrepps þakkar öllum þátttökundum fyrir sendar tillögur og óskar Friðlaugi innilega til hamingju með heiðurinn.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31