Tenglar

26. mars 2014 | vefstjori@reykholar.is

Ketill Ingi hlaut 1.-3. verðlaun í ljóðasamkeppninni

Ketill Ingi Guðmundsson. Myndin var tekin á liðnu sumri við karlinn og kerlinguna í Jökulsárgljúfri.
Ketill Ingi Guðmundsson. Myndin var tekin á liðnu sumri við karlinn og kerlinguna í Jökulsárgljúfri.

Ketill Ingi Guðmundsson í 3. bekk Reykhólaskóla, Ísak Dýri Arnarson í 3. bekk Súðavíkurskóla og Bára Örk Melsted í 8. bekk Grunnskólans á Hólmavík hlutu verðlaunin í ljóðasamkeppninni meðal nemenda í grunnskólum á Vestfjörðum, sem efnt var til í tengslum við Bókahátíðina á Flateyri. Tæplega sextíu ljóð bárust í keppnina og var ekki gert upp á milli ljóðanna þriggja heldur fengu skáldin ungu öll jafngild verðlaun. Þannig má segja að öll hafi fengið 1.-3. verðlaun. Ljóðin þrjú eru birt hér fyrir neðan.

 

Þrátt fyrir að veður hafi sett mark sitt á hátíðina ár, með því móti að færa þurfti alla dagskrá yfir á laugardag, þá heppnaðist þessi fyrsta Bókahátíð á Flateyri vonum framar, segir Eyþór Jóvinsson á Flateyri, frumkvöðull hátíðarinnar. Veðrið á laugardeginum var stórkostlegt og boðið var upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá á Flateyri, þar sem rúmlega 200 manns mættu á viðburði hátíðarinnar. Það er fleira fólk en allir íbúar Flateyrar.

 

Boðið var upp á ljóðalestur bæjarbúa í Gömlu Bókabúðinni, þar sem á borðum var jólakaka og kaffi að hætti Guðrúnar. Þá var vegleg fiskiveisla í mötuneyti ArcticOdda þar sem ljóðaverkefnið ORT var kynnt, jafnframt því sem verðlaunaljóð úr ljóðasamkeppni grunnskóla Vestfjarða voru lesin upp. Á Vagninum fór svo fram ljóðalestur um kvöldið þar sem sex skáld lásu upp verk sín.

 

Vestfirsku grunnskólanemendurnir þrír sem verðlaunin hlutu fá hver um sig, auk viðurkenningskjals,fjölskylduferð á kajak um Önundarfjörðinn í boði Grænhöfða.

 

Verðlaunaljóðin þrjú fara hér á eftir.

 

 

Fjölskyldan mín

 

Mamma situr í garði og er að tína arfa,

pabbi er uppi á þaki,

á meðan stóri bróðir minn er uppfrá að glápa á sjónvarpið,

og á meðan litli bróðir minn hangir í spjaldtölvunni

og á meðan stóra systir mín er í bændaskólanum,

þá er ég að leika við besta vin minn.

 

- Ketill Ingi Guðmundsson, 3. bekk Reykhólaskóla.

 

Tvær sólir

 

Tvær sólir á lofti

og maður hittir dreka.

Hann brosir

og drekinn brosir líka.

Þeir verða vinir

undir skrítinni sólinni.

 

- Ísak Dýri Arnarson, 3. bekk Súðavíkurskóla.

 

 

Biðin

 

Biðin er löng.

Já. Biðin er löng.

Við erum alltaf að bíða.

Við erum alltaf að bíða eftir einhverju.

Hverju?

Hverju erum við eiginlega að bíða eftir?

Hverju sem er.

Það er erfitt að bíða.

Mörgum finnst erfitt að bíða.

Þeir brjálast.

Biðin eftir öllu.

Biðin eftir heiminum.

Biðin eftir alheiminum.

Eða er það alheimurinn sem bíður eftir okkur?

Alheimur, hér er ég, ég er tilbúin,

þú þarft ekki að bíða eftir mér.

Ég er hér.

 

- Bára Örk Melsted, 8. bekk Grunnskólans á Hólmavík.

 

► 22.02.2014 Ljóðasamkeppni meðal vestfirskra grunnskólanema

► 16.03.2014 Taka þátt í vestfirskri ljóðasamkeppni

 

Athugasemdir

Björg Karlsdóttir, fimmtudagur 27 mars kl: 09:20

Til hamingju Ketill, þú ert snillingur

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31